Útskýrðu starfsumhverfi lögreglu

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sagði hátíðirnar bundnar þeim …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sagði hátíðirnar bundnar þeim skilyrðum að lögreglan sé með gott utanumhald. Eggert Jóhannesson

„Við fórum yfir verklag á borgarhátíðum og útskýrðum okkar starfsumhverfi,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH) í samtali við Morgunblaðið. Sigríður Björg mætti í dag ásamt yfirlögregluþjóni á fund mann­rétt­inda-, ný­sköp­un­ar- og lýðræðisráðs Reykja­vík­ur­borg­ar, þar sem verklag lög­reglu á hátíðum á veg­um borg­ar­inn­ar var til umræðu.  

Mál ungrar konu þar sem var hand­tek­in vegna gruns um mót­mæli á hinseg­in dög­um rataði í fjölmiðla í vikunni og óskaði Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Pírata og formaður ráðsins, í kjölfarið eftir að fulltrúi lögreglunnar mætti á fundinn til að fara skipu­lega yfir vinnu­regl­ur sem gilda á hátíðum sem þess­um. Einng stóð til að ræða hvert þeir sem telja lög­reglu hafa brotið á sér geta leitað og hvernig tekið sé á slíku. Sagði Dóra að með þessu vilji borg­in sýna ábyrgð og betr­um­bæta sam­bandið milli lög­reglu og borg­ar­búa.

Að sögn Sigríðar Bjarkar eru hátíðirnar bundnar þeim skilyrðum að lögreglan sé með gott utanumhald. „Þetta fer allt fram í góðu samstarfi og er skipulagt á vinnufundum með borginni og þeim sem að hátíðunum standa,“ sagði hún.

Ríkislögreglustjóri hafi gefið út nýtt hættumat fyrir bæjarhátíðir fyrir um þremur árum og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi hagað skipulagi sínu í samræmi við það. Þar er m.a. kveðið á um aukinn sýnileika lögreglu á hátíðunum, að sérstaklega sé gætt að lokunum m.a. til að koma í veg fyrir að hægt sé að aka inn í mannfjölda og að lögreglan sé viðbragðsfljót ef eitthvað gerist. 

mbl.is