4 mánuðir fyrir stuld á kjúklingabringum

Maðurinn var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar.
Maðurinn var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í fjögurra mánaða fangelsi vegna ítrekaðs búðarhnupls. Maðurinn hefur setið óslitið í gæsluvarðhaldi frá 10. júlí síðastliðnum. Honum er einnig gert að greiða matvöruversluninni Krónunni rúmlega 130 þúsund krónur í skaðabætur auk vaxta. Maðurinn játaði sök í öllum níu ákæruliðum málsins.

Af þeim vörum sem hann stal oftast úr matvöruverslunum, og eru tilgreindar í dómnum, eru kjúklingabringur efstar á lista. Í sjö af níu ákæruliðum hnuplaði hann nokkrum bökkum af kjúklingabringum en annað kjötmeti freistaði hans einnig meðal annars ungnautakjöt, grafinn lax.

Maðurinn var ákærður og sakfelldur fyrir níu þjófnaði á tímabilinu 2. nóvember 2018 til 21. maí í ár. Andvirði varanna sem hann stal í hvert skipti var á bilinu 17 þúsund til tæplega 50 þúsund króna. Brotin voru framin í verslunum víða á höfuðborgarsvæðinu meðal annars við Laugaveg í Reykjavík, Hamraborg í Kópavogi og í Hafnarfirði.

Fyrst stal hann vörum úr Rúmfatalagernum á Smáratorgi 2. nóvember í fyrra að andvirði 32 þúsund króna. Síðasti þjófnaður sem hann varð uppvís að var í verslun Krónunnar í Grafarholti 21. maí 2019. Þar stal hann sextán pökkum af kjúklingabringum, fimm pökkum af nautakjöti og tveimur pökkum af kindafille, samtals að andvirði rúmlega 41 þúsund króna. Þar stal hann í félagi við annan mann. Í öllum hinum átta ákæruliðunum var hann einn að verki. 

mbl.is