Áfram í varðhaldi vegna vopnaðs ráns

Við leit lögreglu fannst byssan, sem reyndist vera eftirlíking af …
Við leit lögreglu fannst byssan, sem reyndist vera eftirlíking af svartri Glock-skammbyssu. mbl.is/Hari

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna gruns um vopnað rán í Reykjavík 25. júlí.

Fyrri gæsluvarðhaldsúrskurður rann út í dag en maðurinn hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðahald til 20. september. Þetta fékk mbl.is staðfest hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt brotaþola höfðu hann og maðurinn mælt sér mót vegna úrs sem brotaþoli ætlaði að selja manninum. Hann hafi hins vegar mætt vopnaður skammbyssu og krafist þess að brotaþoli afhenti sér úrið, sem hann og gerði.

Lögreglan brást skjótt við og var farið í markvissar aðgerðir sem leiddu til handtöku fjögurra manna, en þremur þeirra var fljótlega sleppt úr haldi lögreglu.

Við leit lögreglu fannst byssan, sem reyndist vera eftirlíking af svartri Glock-skammbyssu. Sá grunaði játaði að hafa verið á vettvangi, tekið byssu meðferðis og tekið úrið af brotaþola, en neitaði að hafa ógnað brotaþola með byssunni til að komast yfir úrið.

Að mati lögreglu er hins vegar sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi framið vopnað rán, en úrið er af gerðinni Breitling og um einnar milljónar króna virði, samkvæmt brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert