„Auðvitað hrekkur maður í kút“

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir mestu hættuna í Reynisfjöru stafa …
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir mestu hættuna í Reynisfjöru stafa af því að fólk fari ekki eftir tilmælum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað hrekkur maður í kút þegar maður sér þetta, þetta er mikið. En þetta er ekkert sem kemur manni í rauninni á óvart,“ segir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, um skriðuna sem féll í Reynisfjöru á þriðjudag.  

„Veðurstofan fylgist með hættu á grjóthruni en eina sem við getum gert er að vara fólk við. Við getum ekki staðið þarna og passað upp á að fólk fari sér ekki að voða. Það er á ábyrgð hvers og eins að fara eftir tilmælum. Við getum í rauninni ekki gert mikið meira,“ segir Þorbjörg.   

Vandamál að fólk fari ekki eftir tilmælum

Hún segir mestu hættuna stafa einmitt af því að fólk fari ekki eftir tilmælum. Dæmi eru um það að ferðamenn hafi ekki fylgt fyr­ir­mæl­um lög­reglu og farið inn á svæði í Reyn­is­fjöru sem lögreglan lokaði eftir að skriðan féll.  

„Það er vandamálið. Fólk er ekki alltaf að fara eftir tilmælum sem sýnir sig núna eftir að við settum upp viðvörun og bannmerki en fólk stendur samt þarna undir brúninni eins og ekkert hafi gerst,“ segir Þorbjörg. 

mbl.is náði tali af henni skömmu fyrir fund landeigenda, lögreglunnar á Suðurlandi og fulltrúa Vegagerðarinnar þar sem endanleg ráðstöfun um merkingu svæðisins verður rædd. Þorbjörg vonast til að fundurinn verði gagnlegur og að hægt verði að taka ákvörðun í framhaldinu um merkingar í fjörunni. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er enn talið óöruggt að fara um svæðið þar sem skriðan féll og lokanir verða því áfram í gildi um óákveðinn tíma. 

„Við höfum verið að láta mynda svæðið fyrir okkur og sjáum að það er sprunga nærri þessum stað þar sem skriðan féll núna, vestan við fjallið. Þetta virðist vera óstöðugt á stærra svæði og ekki talið óhætt að vera í fjörunni,“ segir Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands. 

Á myndinni má sjá skriður sem hafa fallið á síðustu …
Á myndinni má sjá skriður sem hafa fallið á síðustu 10 árum. Hér er teiknað ofan í mynd sem lögreglan á Suðurlandi tók með flygildi. Ljósmynd/Veðurstofan/Lögreglan á Suðurlandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert