Fleiri kaupendur horfi til dómsmálsins

Frá þingfestingu málsins í síðustu viku. Þá voru tvö mál …
Frá þingfestingu málsins í síðustu viku. Þá voru tvö mál í gangi, en samist hefur í öðru þeirra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Daði Bjarnason, lögmaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), lagði í dag fram greinargerð með vörnum félagsins í aðfararmáli hjóna sem keyptu íbúð af FEB í Árskógum, er málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ekki hafa náðst sættir á milli hjónanna og félagsins. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður hjónanna segir í samtali við mbl.is að hún viti til þess að fleiri kaupendur, sem enn hafi ekki fallist á að greiða hærra verð fyrir íbúðir sínar, skoði stöðu sína og fylgist með dómsmálinu sem hún rekur fyrir hönd hjónanna. Mál þetta er enda fordæmisgefandi fyrir aðra sem eru í þessari fordæmalausu stöðu.

Fimmtán kaupendur enn að hugsa málið

„Ég veit til þess og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að fólk sem telur sig hafa skýran rétt sé ekki tilbúið að gefa þann rétt eftir þegar hann fellst í því, fyrir eldri borgara, að greiða einhverjar milljónir aukalega umfram það sem þeim er skylt. Þá er ekkert óeðlilegt að þeir fylgist með einhverju máli sem er í gangi og hver niðurstaðan verður, upp á þeirra næstu skref,“ segir Sigrún, en samkvæmt tilkynningu frá FEB á miðvikudag var búið að ræða við 53 kaupendur, 39 höfðu samþykkt að greiða meira fyrir íbúðir sínar, en fimmtán kaupendur voru enn að hugsa málið.

Næsta skref í málinu er það að því verður úthlutað til dómara við héraðsdóm, en aðstoðarmaður dómara hefur annast fyrstu fyrirtökurnar. Þegar búið verður að úthluta málinu til dómara verður fundinn tími til þess að flytja málið.

Húsin í Árskógum 1 og 3 í Breiðholti.
Húsin í Árskógum 1 og 3 í Breiðholti. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vona að þetta verði sem allra fyrst, við höfum lagt áherslu á það og þessar aðfararbeiðnir eru þannig að þær eiga að taka mjög stuttan tíma í eðli sínu. Þegar mál fara þessa leið þá byggir aðilinn sem höfðar málið á því að þetta séu óumdeild réttindi, þannig að það er gert ráð fyrir því að þetta fari skjótari leið en önnur mál í kerfinu,“ segir Sigrún, en bætir við að það ráðist að einhverju leyti af dagskrá dómsins hvenær verði hægt að taka það fyrir.

Ekki nægur sáttavilji hjá FEB

Sigrún Ingibjörg segir að skjólstæðingar sínir telji sig hafa „gengið langt“ í því að reyna að ná samkomulagi á síðustu dögum, „langt umfram skyldu.“

„Þau hafa ekki upplifað nægilegan vilja hinumegin til þess að sætta málið á sanngjarnan og eðlilegan hátt í ljósi þess hvert það er komið,“ segir Sigrún.

mbl.is