Fólk elskaði að hata skúrkinn J.R. Ewing

Karl Ferdinand Thorarensen ætlar að fræða fólk um Dallas-þættina margfrægu.
Karl Ferdinand Thorarensen ætlar að fræða fólk um Dallas-þættina margfrægu. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég ætla að tala um allt í kringum þessa þætti sem mér finnst merkilegt, til dæmis hversu karllægir þættirnir eru, enda skrifaðir af körlum og framleiddir af körlum. Hreyfiaflið er karlarnir, Jock er patríarkinn, sterkur föðurlegur leiðtogi sem tekur allar helstu ákvarðanir, þó svo að Ellie kona hans standi ágætlega í lappirnar,“ segir Karl Ferdinand Thorarensen, sem ætlar að vera með örnámskeið í september um sjónvarpsþættina Dallas.

„Konurnar eru veikar persónur með lítið vægi. Sue Ellen er alkóhólisti sem eiginmaðurinn J.R. brýtur stanslaust niður, en Pam klappar bara Bobby. Eftir því sem fór að líða á seríuna voru leikararnir farnir að leikstýra þáttunum líka, en þegar Linda Gray sem lék Sue Ellen og Victoria Principal sem lék Pamelu báðu um að fá að leikstýra þá fengu þær það ekki, með þeim rökum að þá kæmu allar aðrar leikkonur í kjölfarið og vildu leikstýra.

Victoria Principal neitaði að vera lengur með árið 1987 af því að hennar persóna í þáttunum fékk ekkert að þróast. Linda Gray sagðist hafa verið nátengd persónunni sem hún lék, Sue Ellen, og að það hefði tekið á tilfinningalega að leika erfiðar senur þar sem J.R. beitti hana ofbeldi,“ segir Karl.

Stórfjölskyldan öll saman á Southfork-búgarðinum.
Stórfjölskyldan öll saman á Southfork-búgarðinum. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Samfélagið á Íslandi var á þessum tíma afar íhaldssamt, en þegar fólk kveikti á Dallas birtist því glansheimur ríka fólksins í Texas. Fólk sem átti allt en var mjög óhamingjusamt,“ segir Karl og bætir við að upphaflega hafi þættirnir átt að snúast um Bobby og Pam, einhvers konar Rómeó og Júlíu-sögu þar sem tvær ættir mætast og berast á banaspjót.

„Svo kom í ljós að vondi karlinn, J.R., var sú persóna sem allir elskuðu að hata og vildu sjá hvað gerði næst. Þættirnir fóru því að hverfast um hann. Þessir þættir höfðu allt sem þarf til að búa til ómótstæðilega þætti, þetta er fjölskyldudrama þar sem ást og hatur, peningar og völd, kynlíf og ofbeldi kemur við sögu. Ég ætla líka á námskeiðinu að velta upp hvað það er í mannlegu eðli sem dregur okkur að slíkum sögum, því okkur hefur verið sögð sú sama saga í gegnum aldirnar, í nýjum búningi hverju sinni.“ Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »