„Framganga Ragnars Þórs með ólíkindum“

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, vísar ásökunum um lögbrot á …
Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, vísar ásökunum um lögbrot á bug.

„Ég hef ekki framið neitt lögbrot það er alveg á hreinu,“ eru fyrstu viðbrögð Guðrúnar Hafsteinsdóttur, varaformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV), er hún er innt álits á ásökunum Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að hún hafi brotið lög með því að tilkynna ekki Fjármálaeftirlitinu (FME) um skipun nýrra stjórnarmanna LV og að boða ekki nýjan stjórnarfund.

„Við erum búin að tilkynna þessa stjórnarmenn til Fjármálaeftirlitsins og það er fundur á þriðjudaginn. Ragnari Þór er kunnugt um það,“ segir Guðrún. „Við höfum beðið eftir svari frá Fjármálaeftirlitinu alla þessa viku um það hvort Fjármálaeftirlitið líti á þessa skipan stjórnar VR sem lögmæta og það er engin efi í mínum huga ef Fjármálaeftirlitið gefur okkur það að svo sé, þá taka nýir stjórnarmenn sæti af hálfu VR.“

Bendir hún á að FME hafi gert athugasemd við það þegar fulltrúaráð VR afturkallaði umboð stjórnarmanna sem félagið skipar í stjórn LV og að það væri stjórnar VR að taka slíka ákvörðun.

„Í júlí komst FME að þeirri niðurstöðu að gamla stjórnin […] að það væri óumdeilt að að Ólafur Reimar [Gunnarsson] væri stjórnarformaður sjóðsins. Þannig ég lít þá svo á að Ólafur Reimar sé stjórnarformaður, ég er varaformaður stjórnar,“ segir Guðrún.

Álit FME er nú fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, eftir að VR stefndi FME og stjórn LV.

Ekki óeðlilegt að leita til FME

Í síðustu viku ákvað stjórn VR að skipa nýja fulltrúa í stjórn sjóðsins og hefur Ragnar Þór sagt í samtali við mbl.is í dag að það hafi verið í samræmi við álit FME.

„Við leitum leiðsagnar Fjármálaeftirlitsins og ekkert óeðlilegt að við gerum það aftur núna þegar VR skipar á nýjan leik. Þannig að ég vísa þessu algjörlega til föðurhúsanna að ég hafi framið lögbrot. Mér finnst þetta full djúpt í árina tekið.“

Bætir varaformaðurinn við að stjórnin sé ekki að gera annað „en að vinna eftir góðum stjórnarháttum og tryggja að hlutirnir séu í lagi. Sjóðsfélagar geta treyst því.“

„Vísa þessu algjörlega á bug“

„Mér finnst framganga formanns VR með ólíkindum, ég verð að segja eins og er. Hann er búinn að tala um það mikið þessa vikuna að Samtök atvinnulífsins og fulltrúar þeirra hafi framið valdarán og það hafi verið nánast árásir af hendi Samtaka atvinnulífsins gagnvart VR. Ég vísa þessu algjörlega á bug og það geta allir séð það að ég er líklega fyrsta manneskjan í þessari viku sem er að svara þessum aðdróttunum Ragnars Þórs,“ segir Guðrún.

„Hann birtir Facebook-færslu á þriðjudag sem ég hef ekki svarað og hann fór mikinn í útvarpi á Bylgjunni í morgun og ég hef ekki svarað. Það hefur enginn gert frá Húsi atvinnulífsins,“ staðhæfir hún og bætir við að hún vilji ítreka „að það hefur enginn úr Húsi atvinnulífsins reynt að hafa áhrif á störf stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, enginn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina