„Guðrún gríðarlega hæf“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ekkert til í fullyrðingum …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ekkert til í fullyrðingum um að ákveðið hafi verið að Guðrún Johnsen verði stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzllunarmanna. Ljósmynd/Arion banki

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir af og frá að ákveðið hafi verið að Guðrún Johnsen verði stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hún er einn fjögurra stjórnarmanna sem VR hefur skipað í stjórn sjóðsins eftir að fulltrúaráð félagsins ákvað að afturkalla umboð stjórnarmanna. Deilt er um lögmæti þeirrar ákvörðunar.

„Ég get ekki staðfest það. Ég veit ekki hvaðan það kemur. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um neitt slíkt,“ segir Ragnar Þór inntur álits á fullyrðingu í umfjöllun Fréttablaðsins í dag um áform þess efnis að Guðrún verði næsti stjórnarformaður sjóðsins.

„Hún sest í stjórn sjóðsins fyrir hönd félagsins, en hvort hún verður stjórnarformaður það kemur bara í ljós. Það er verkaskipting stjórnarinnar sem fer í gegnum það,“ bætir formaður VR við.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Eggert

Í stjórn Arion þegar samningur Höskuldar var breyttur

Spurður hvort stjórnarseta Guðrúnar í stjórn Arion banka á þeim tíma er ráðningasamningi Höskuldar Ólafssonar, fyrrverandi bankastjóra, var breytt – á þann veg að hann fengi 150 milljóna króna starfslokasamning – hafi áhrif á afstöðu VR til stjórnarsetu hennar í lífeyrissjóðnum, segir Ragnar Þór svo ekki vera.

„Ég hafði vitneskju um það að hún sat í stjórn Arion banka á þessu tímabili, en það eru fleiri mál sem vega þyngra,“ svarar hann.

„Eins og aðkoma hennar að rannsóknarskýrslu Alþingis, þekking á innviðum viðskipta- og fjármálakerfisins sem er vandfundinn og sömuleiðis kjarkur hennar til þess að spyrja óþægilegar spurningar. Meðal annars afstaða hennar varðandi sölu bankans á hlut sínum í Bakkavör til bræðranna á sínum tíma. Það fannst mér persónulega vega þyngra en margt annað,“ útskýrir formaðurinn.

„Ég held hún sé gríðarlega hæf til þess að vinna fyrir okkar hönd og ég held að hópurinn sem við höfum verið að velja þarna inn til bráðabirgða sé mjög sterkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert