„Seðlabankinn á varhugaverðri vegferð“

Samningurinn við Ingibjörgu var gerður í tíð Más Guðmundssonar, sem …
Samningurinn við Ingibjörgu var gerður í tíð Más Guðmundssonar, sem lét af embætti seðlabankastjóra í vikunni. mbl.is/Golli

„Seðlabankinn er á varhugaverðri vegferð þegar hann er farinn að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að svona upplýsingar komi fyrir augu almennings.“ Þetta segir Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, en stefna Seðlabanka Íslands gegn honum var tekin fyrir í héraðsdómi í morgun.

Bank­inn stefn­ir Ara til að fá felld­an úr gildi úr­sk­urð úr­sk­urðar­nefnd­ar upp­lýs­inga­mála þess efn­is að bank­an­um beri að veita Ara umbeðnar upp­lýs­ing­ar um náms­styrk til Ingi­bjarg­ar Guðbjarts­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra gjald­eyr­is­eft­ir­lits bank­ans.

Ari óttast að málið sé fordæmisgefandi og það veki upp spurningar um rétt almennings og fjölmiðla að upplýsingum. Ari segir að bið íslenskra blaðamanna eftir upplýsingum sé nú þegar óþarflega löng í samanburði við nágrannaríkin og íslenskar stofnanir stundi það að beita öllum ráðum til að bregða fæti fyrir blaðamenn. 

Blaðamannafélagið hefur fordæmt vinnubrögð bankans og segir í yfirlýsingu að „öll­um [megi] vera ljóst að þessi mál varði al­menn­ing í land­inu“ og því sé „frá­leitt“ hjá stjórn­end­um Seðlabank­ans að neita að veita þess­ar upp­lýs­ing­ar“.

Undir það hafa fleiri tekið, svo sem Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi blaðamaður.

Ekki trúverðug leið til að auka gagnsæi

Við fyrirtöku í dag lagði lögmaður Ara fram skýrslu GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, en í skýrslu þeirrar nefndar um traust á stjórnmálum er þessari háttsemi lýst sem „sérstökum kúltúr í stjórnsýslunni“ líkt og fram kemur í bréfi Ara til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Samningurinn, sem deilt er um hvort blaðamenn eiga rétt á að sjá, var gerður í tíð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, og málshöfðun sömuleiðis, en Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra í vikunni. Ari bendir á að Ásgeir hafi á blaðamannafundi í vikunni sagt að mikilvægt væri að auka gagnsæi innan bankans.

Ásgeir kvaðst ekki geta tjáð sig um málið við fjölmiðla á þriðjudag þar sem honum hefði ekki gefist tóm til að setja sig almennilega inn í það. „En ég tel það ekki í átt að auknu gagnsæi að halda þessu máli til streitu,“ segir Ari.

Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, í dómsal í morgun.
Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, í dómsal í morgun. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert