Stefna Seðlabankans tekin fyrir

Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu.
Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu. mbl.is/Arnþór

Stefna Seðlabanka Íslands á hendur Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Bankinn stefnir Ara til að fá felldan úr gildi úrskurð úr­sk­urðar­nefndar upp­lýs­inga­mála þess efnis að bank­an­um beri að veita Ara umbeðnar upp­lýs­ing­ar um náms­styrk til Ingi­bjarg­ar Guðbjarts­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra gjald­eyris­eft­ir­lits bank­ans. Aðalmeðferð verður í Héraðsdómi Reykjaness föstudaginn 4. október klukkan 9:15.

Í stað þess að una úrskurði nefndarinnar fór bankinn fram á það við úrskurðarnefndina að réttaráhrifum yrði frestað á meðan málið yrði borið undir dómstóla, og varð nefndin við því. Segir enda í rökstuðningi úrskurðarnefndar fyrir því að fallast á frestunina að „úrskurðurinn „[styðjist] ekki við skýr fordæmi dómstóla eða rótgróna úrskurðarframkvæmd nefndarinnar sjálfrar“.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum, sem gefin var út er stefnan var birt, segir að hún beinist ekki gegn blaðamanni, heldur sé markmiðið einfaldlega að fá úrskurði nefndarinnar hnekkt. Því muni bankinn ekki krefja Ara um greiðslu málskostnaðar þótt málið vinnist.

Samningurinn við Ingibjörgu var gerður í tíð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, en hann gaf ekki kost á viðtali er mbl.is falaðist eftir því fyrr í mánuðinum. Már lét af embætti seðlabankastjóra á þriðjudag og við tók Ásgeir Jónsson. Á blaðamannafundi á þriðjudag var Ásgeir spurður út í málið, en sagðist ekki hafa gefist tími til að setja sig nægilega inn í það til að geta svarað spurningum fjölmiðla, enda fyrsti vinnudagur nýhafinn.

Blaðamenn Fréttablaðsins hafa flutt fréttir af samkomulaginu, til að mynda …
Blaðamenn Fréttablaðsins hafa flutt fréttir af samkomulaginu, til að mynda á forsíðu 19. júlí, en ekki fengið að sjá það í heild sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nóv­em­ber í fyrra sendi Ari, sem þá var fréttastjóri DV, fyr­ir­spurn á bank­ann þar sem óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um um til­hög­un náms­leyf­is Ingi­bjarg­ar árin 2016-2017 er hún sótti MPA-nám í Banda­ríkj­un­um, en að námi loknu sneri Ingi­björg ekki aft­ur til starfa hjá bank­an­um.

Seðlabank­inn neitaði að svara fyr­ir­spurn­inni og kærði Ari bank­ann því til upp­lýs­inga­nefnd­ar um upp­lýs­inga­mál, sem úr­sk­urðaði hon­um í vil í síðasta mánuði. „Bank­inn bar fyr­ir sig að mál­efni bank­ans sjálfs eigi ekki er­indi við al­menn­ing, sem held­ur nátt­úru­lega ekki vatni,“ sagði Ari í sam­tali við mbl.is er stefnan var birt honum fyrr í mánuðinum.

Fyrirtaka í máli Seðlabankans gegn Ara Brynjólfssyni fór fram í …
Fyrirtaka í máli Seðlabankans gegn Ara Brynjólfssyni fór fram í morgun. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert