Taka með sér sápukúlur í hlaupið

Fjölskyldan á góðri stundu. F.v. Halldór Geir Jensson, Arnór Bjarki …
Fjölskyldan á góðri stundu. F.v. Halldór Geir Jensson, Arnór Bjarki og Kristín Halldórsbörn, Birgitta Rut Birgisdóttir og Brynjar Bjarmi Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi þeirra sem tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun mun hlaupa til styrktar góðum málefnum. Í þeim hópi verður tæplega 80 manna hópur klæddur gulum bolum sem mun hlaupa til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í minningu Kristínar Halldórsdóttur, sem var tveggja ára er hún lést.

„Okkur langar að þakka fyrir okkur með því að hlaupa saman og safna fyrir SKB um leið og við minnumst Kristínar okkar þennan dag. „Hún Kristin okkar “nagli” kenndi okkur að halda alltaf áfram, alveg fram á síðasta dag, með dans, gleði og sápukúlur að leiðarljósi og það er nákvæmlega þannig sem við viljum minnast hennar og þannig sem við ætlum að tækla hlaupið,“ segir í lýsingu á hlaupastyrk Reykjavíkurmaraþons.

Ár verður á morgun liðið frá dánardægri Kristínar og segir faðir hennar Halldór Geir Jensson í samtali við mbl.is hugmyndina að hlaupinu, sem kom frá bræðrum Kristínar þeim Arnóri Bjarka 10 ára og Brynjari Bjarma 16 ára hafa verið þá að dreifa huganum. „Við vildum hafa eitthvað fyrir stafni þennan dag og svo vildum við líka minnast hennar á sem sterkastan hátt,“ segir hann.

Auk þeirra Halldórs, Arnórs Bjarka og Brynjars Bjarma mun móðir þeirra Birgitta Rut Birgisdóttir, ömmur, frændur og frænkur hlaupa til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna (SKB) í minningu Kristínar og það mun raunar líka gera fjöldi vina fjölskyldunnar og skólafélagar bræðranna.„Við störtuðum hópnum í lok júní – byrjun júlí og síðan þá er bara búið að bætast við hann jafnt og þétt,“ segir Halldór. „Maður er eiginlega með gæsahúð yfir því hversu margir eru með okkur í þessu.“

Líkt og áður sagði hleypur hópurinn í gulum bolum sem sem þau létu hanna með mynd eftir Kristínu á bakinu.

Þeir Arnór Bjarki og Brynjar Bjarmi með Kristínu systur sinni.
Þeir Arnór Bjarki og Brynjar Bjarmi með Kristínu systur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Fannst milljón háleitt markmið

Markið var sett á að safna einni milljón króna fyrir SKB, en þegar blaðamaður ræddi við Halldór var upphæðin að nálgast 1,7 milljónir og bættist stöðugt við. Þegar viðtalið var birt höfðu safnast tæplega 1,75 milljónir króna. „Okkur fannst milljón mjög háleitt markmið en nú erum við næstum búin að tvöfalda það og það er alveg geggjað,“ segir hann.

Kristín greindist 1. júní í fyrra með sjaldgæft krabbamein, svo nefnt ETMR, sem leggst á heila og taugakerfi. Hún fór í fjölda aðgerða í kjölfarið og dvaldi um sumarið á sjúkrahúsi, en missti aldrei gleðina, æðruleysið og styrk sinn.

Halldór segir SKB hafa reynst fjölskyldunni mikill styrkur strax frá byrjun. „Þetta er ótrúlega gott félag,“ segir hann. „Þegar hún greinist veit maður ekkert hvað er í gangi. Þá komu þau strax og fóru með okkur í gegnum þetta skref fyrir skref. Við erum enn í dag að tala við þau og ég held að þeim samskiptum muni aldrei ljúka.“

Fjölskyldan er dugleg að iðka íþróttir og æfa strákarnir til að mynda báðir körfubolta, sjálfur hefur Halldór líka verið körfuboltadómari um árabil. Þau ákváðu þó að taka þriggja kílómetra vegalengdina svo allir geti farið með, enda er aldursbilið í hópnum breitt. Sá yngsti er ekki nema 14 mánaða og sá elsti um sjötugt. „Okkur finnst fallegt að geta verið öll saman í þessu. Markmiðið er ekki að hlaupa, það er frekar að labba saman. Við erum líka búin að biðja fólk um að taka með sér sápukúlur til að hafa það fallegt.“  

Hægt er að styrkja SKB hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert