Tefldi fjöltefli við 60 nemendur

Nemendur voru ánægðir með hátíðina.
Nemendur voru ánægðir með hátíðina. Ljósmynd/Aðsend

Polar Pelagic-hátíð Hróksins í Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands, lauk í gærkvöldi, fimmtudaginn 22. ágúst, þegar Máni Hrafnsson tefldi fjöltefli við 60 nemendur grunnskólans í bænum.

Máni og Joey Chan hafa undanfarna daga kennt rúmlega 400 grunnskólabörnum undirstöðuatriði skáklistarinnar, efnt til myndlistarsamkeppni, heimsótt heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá sínum nánustu og fært bágstöddum fjölskyldum í bænum veglegar gjafir. Í hátíðarlok var Justus Hansen, þingmaður og fulltrúi í sveitarstjórn Sermsooq, gerður að heiðursfélaga Hróksins. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Joey Chan með Justus Hansen, nýjum heiðursfélaga Hróksins.
Joey Chan með Justus Hansen, nýjum heiðursfélaga Hróksins. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var í einu orði sagt stórkostlegt,“ er haft eftir Mána Hrafnssyni í tilkynningu. Hann hefur tekið þátt í skáklandnámi Hróksins á Grænlandi frá upphafi, árið 2003. Máni og Joey hafa síðustu árin séð um árlegar páskahátíðir í Ittoqqortoormiit, afskekktasta bæ Grænlands, og í fyrra fóru þau ásamt sirkuslistamönnum til Kullorsuaq, sem er á 74. breiddargráðu á vesturströndinni.

Justus og Joey með glöðum verðlaunahöfum.
Justus og Joey með glöðum verðlaunahöfum. Ljósmynd/Aðsend

Máni kom fyrst til Tasiilaq árið 2004 þegar Hrókurinn og Air Iceland Connect héldu fyrstu hátíðina á austurströndinni. „Börnin sem fæddust um það leyti eru nú í efsta bekk grunnskólans. Bæjarbragurinn í Tasiilaq hefur breyst heilmikið, en flestir búa við lífskjör sem eru þorra Íslendinga framandi,“ segir Máni, um kynni sín af þessum næstu nágrönnum Íslendinga. 

Auk þess að kenna og tefla í grunnskólanum heimsóttu Máni og Joey nokkur heimili fyrir börn, klyfjuð gjöfum. „Við vorum með mikið af splunkunýjum hlífðarfatnaði frá Lindex, heilu kassana af prjónafötum frá okkar frábæru hannyrðakonum, góð og vönduð föt við allra hæfi, leikföng og alls kyns gjafir frá velunnurum á Íslandi,“ segir Máni og bað fyrir sérstakar þakkir til allra sem lögðu sitt af mörkum.

Máni tefldi við 60 börn og ungmenni á hátíðinni.
Máni tefldi við 60 börn og ungmenni á hátíðinni. Ljósmynd/Aðsend

Polar Pelagic-hátíðin var nú haldin í fimmta sinn, en PP er dótturfyrirtæki Polar Seafood á Grænlandi og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta var jafnframt þriðja minningarhátíðin um Gerdu Vilholm, sem lést í ársbyrjun 2017. Gerda rak einu bókabúðina á Austur-Grænlandi, sem jafnframt var griðastaður barnanna í bænum. „Gerda var einstök kona og máttarstólpi í bæjarlífinu. Hún studdi líka starf Hróksins með ráðum og dáð, og börnin komu daglega í búðina hennar, sem bar nafnið Háskóli Alheimsins, til að tefla og njóta lífsins. Gerda var heiðursfélagi Hróksins og við minnumst hennar með miklum söknuði og virðingu,“ segir Máni.

Eftir fjöltefli Mána á fimmtudagskvöldið var sérstök athöfn þar sem Justus Hansen var útnefndur heiðursfélagi Hróksins. Justus er þingmaður á grænlenska þinginu, Inatsisartut, og jafnframt fulltrúi í sveitarstjórn Sermersooq sem er hið fjölmennasta af sveitarfélögunum fimm á Grænlandi og fimm sinnum stærra en Ísland að flatarmáli. Það nær alla leið frá höfuðborginni Nuuk á vesturströndinni til byggðanna á austurströndinni.

Ljósmynd/Aðsend

„Justus hefur verið ómetanleg hjálparhella gegnum árin og sannur liðsmaður Hróksins. Hann er alltaf boðinn og búinn að aðstoða og gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að auðga líf barnanna á Grænlandi. Hann lagði líka fram, og fékk samþykkta, tillögu í sveitarstjórn Sermersooq um að skák yrði tekin á námskrá grunnskólanna. Grænlendingar eru þannig komnir feti framar í skákvæðingu skólakerfisins en Íslendingar,“ segir Máni.

Við athöfnina þakkaði Justus liðsmönnum Hróksins starfið á Grænlandi, jafnt við að útbreiða skáklistina sem að stuðla að aukinni samvinnu og vináttu grannþjóðanna. Hann kvaðst nota hvert tækifæri til að segja frá starfi Hróksins, jafnt innan Grænlands sem á alþjóðlegum ráðstefnum.

Horft yfir Tasiilaq. Um tvö þúsund manns búa í höfuðstað …
Horft yfir Tasiilaq. Um tvö þúsund manns búa í höfuðstað Austur-Grænlands. Ljósmynd/Aðsend

Hróksliðar hafa nú farið sex sinnum á þessu ári til Grænlands með veislu í farangrinum. Annar leiðangur er nýkominn frá vesturströndinni, en þar var mikilli skák- og sirkushátíð slegið upp í Kullorsuaq, 450 manna þorpi á samnefndri eyju, og efnt til velheppnaðra viðburða í Upernavik og Nuuk. Fjölmargir hafa lagt Hróknum lið við hátíðarhöldin, auk Polar Pelagic, m.a. Air Iceland Connect, sem verið hefur helsti bakhjarl Hróksins frá upphafi en auk þess voru það Grænlandssjóður, Kópavogsbær, ÍsSpor, Penninn o.fl. sem styrktu hátíðina.

Máni sagði að Hróksliðar væru þegar langt komnir með skipulagningu næstu ferða til Grænlands. „Það er margt á teikniborðinu hjá okkur, meðal annars ferðir til Nuuk og Ummannaq með haustinu, og svo sendum við auðvitað Stekkjarstaur með jólagjafir handa öllum börnunum í Kulusuk líkt og síðustu árin.“

Þá heldur fatasöfnun Hróksins í þágu grænlenskra barna áfram nú í haust. Í vikunni skilaði stór sending sér til Ittoqqortoormiit, með skútunni Hildi sem Norðursigling gerir út, en áður höfðu Landflutningar séð um að koma góssinu til Húsavíkur. „Það leggjast allir á eitt, með bros á vör, í þessum gefandi og mikilvægu verkefnum,“ segir Máni.

Ljósmynd/Aðsend

Hrókurinn býður Grænlandsvinum og öðrum velunnurum á opið hús á Menningarnótt í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11, við Reykjavíkurhöfn, milli klukkan 14 og 16. Þar verða sýndar myndir frá hátíðunum sem haldnar voru nú í ágúst, auk listaverka eftir grænlensk börn. Þá verður slegið upp Grænlandsmóti í skák, sem hefst klukkan 14. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert