14 aukavagnar vegna álags

Menningarnótt er mesti álagsdagur ársins hjá Strætó.
Menningarnótt er mesti álagsdagur ársins hjá Strætó. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Það er óhætt að segja að mikið er um að vera hjá Strætó í dag, en að venju boðið er frítt far vegna menningarnætur. Þá er þetta mesti álagsdagur ársins hjá fyrirtækinu, að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó bs.

Hann segir fjórtán aukavagna í umferð í dag og bendir meðal annars á að vagnar séu að ganga á tíu mínútna fresti um strætóleið eitt vegna álags. Þá sé nóg um að vera á stjórnstöð fyrirtækisins þar sem verið er að færa vagna milli leiða til þess að anna eftirspurn á hverjum tíma. „Heilt yfir myndi ég segja að hafi gengið vel að sinna þessu.“

„Þetta er stærsti dagur strætó og það er gríðarleg vinna sem fer í að skipuleggja svona. Vagnstjórar tala oft um það að þeim finnist þetta ótrúlega gaman að taka þátt í þessu, sérstaklega eftir flugeldasýninguna þá er alltaf góð stemning að fá að vera í þessu.“

Til viðbótar við hefðbundnar leiðir Strætó býður fyrirtækið upp á skutluþjónustu frá Laugardalshöll, um Borgartún, að Hlemmi, upp að Hallgrímskirkju og til baka. Skutlurnar hófu akstur klukkan hálf átta í morgun og ganga til klukkan eitt í nótt. „Mér skilst að skutlurnar hafi verið alveg á fullu,“ segir Guðmundur Heiðar.

Á Twitter-síðu fyrirtækisins er bent á að ef ekki er „pláss í vagninum, þá ætti næsti aukavagn ekki að vera langt undan.“

Hægt er að finna ítarlegar upplýsingar um þjónustu Strætó í dag á vefsíðu fyrirtækisins.

mbl.is