36. Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hafið

Heilt maraþon hlaupa 1.351 þátttakandi og á þriðja þúsund eru …
Heilt maraþon hlaupa 1.351 þátttakandi og á þriðja þúsund eru skráð til þátttöku í hálfmaraþon, eða 2.915. mbl.is/Árni Sæberg

Ræst var út í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka í 36. sinn í Lækjargötu nú klukkan 8:40. Keppendur í heil- og hálfmaraþoni eru því lagðir af stað í 21 og 42 kílómetra hlaup.

Keppendur í 10 km hlaupi hlaupa svo af stað kl. 9:35, en keppendur í þeirri vegalengd eru 7.186 og hafa aldrei verið fleiri. Hið sama gildir um 3 km skemmtiskokk, sem hefst kl. 12:15, en þar eru þátttakendur 2.413.

Heilt maraþon hlaupa 1.351 þátttakandi og á þriðja þúsund eru skráð til þátttöku í hálfmaraþon, eða 2.915.

Fámennast er í hópi 600 m skemmtiskokkara, sem halda af stað kl. 13:30 og 14, en þar eru alls 726 skráðir til þátttöku.

Áheitamet síðasta árs í hættu

Hlauparar og áhorfendur eru hvattir til að mæta tímanlega í Lækjargötu og gera ráð fyrir að það taki lengri tíma að koma sér á staðinn vegna götulokana og fjölmennis á svæðinu.

Áheitasöfnun gengur vel, samkvæmt tilkynningu, en búið er að safna 15% hærri upphæð en á sama tíma í fyrra. Heildarupphæð safnaðra áheita nálgast nú 150 milljónir og ljóst að metið frá því í fyrra, 159.962.358, er í hættu. Áheitasöfnunin verður opin til miðnættis á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert