Andlát: Erna Finnsdóttir

Erna Finnsdóttir
Erna Finnsdóttir

Erna Finnsdóttir lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í gærmorgun, 95 ára að aldri.

Hún fæddist í Reykjavík 20. mars 1924, dóttir Finns Sigmundssonar, landsbókavarðar í Reykjavík, og konu hans Kristínar Aðalbjargar Magnúsdóttur húsfreyju. Bróðir Ernu var Birgir Finnsson (f. 1927, d. 2003), forstöðumaður Tjaldanesheimilisins í Mosfellssveit.

Erna lauk stúdentsprófi frá máladeild Menntaskólans í Reykjavík 17. júní 1944 og var því 75 ára stúdent á þessu ári. Hún stundaði jafnframt píanónám.

Erna giftist 6. júlí 1947 Geir Hallgrímssyni, síðar borgarstjóra, ráðherra og seðlabankastjóra í Reykjavík, f. 16. desember 1925. Hann var einnig í stjórn Árvakurs hf., útgefanda Morgunblaðsins og stjórnarformaður um skeið. Foreldrar Geirs voru Hallgrímur Benediktsson, stórkaupmaður í Reykjavík, og kona hans Áslaug Geirsdóttir Zoëga, húsfreyja. Erna og Geir bjuggu alla tíð í Reykjavík nema á árunum 1947-1949 þegar þau bjuggu í Boston þar sem Geir stundaði nám í hagfræði og elsti sonurinn fæddist. Börn Ernu og Geirs eru:

1) Hallgrímur, f. 1949. Eiginkona hans er Aðalbjörg Jakobsdóttir, f. 1949. Dóttir þeirra er Erna Sigríður, f. 1972. 2) Kristín, f. 1951, eiginmaður hennar er Freyr Þórarinsson, f. 1950. Synir þeirra eru Þórarinn, f. 1973, og Geir, f. 1978. 3) Finnur, f. 1953, eiginkona hans er Steinunn Kristín Þorvaldsdóttir, f. 1953. Börn þeirra eru Kári Finnsson, f. 1987, Geir Finnsson, f. 1992, og Elísabet Þórðardóttir, f. 1979. 4) Áslaug, f. 7. október 1955. Sonur hennar er Geir Áslaugarson, f. 1997.

Morgunblaðið sendir fjölskyldu Ernu og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert