Bankastjóri gekk í hús

Frá göngutúr bankastjóra og samstarfsfólks í gær.
Frá göngutúr bankastjóra og samstarfsfólks í gær. Ljósmynd/Aðsend

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, gekk í hús í nokkrum af þeim götum sem farið verður um í Reykjavíkurmaraþoninu ásamt samstarfsfólki sínu á fimmtudag og þakkaði fólki fyrir stuðninginn undanfarin ár.

Gengið var um Lynghaga, Ægissíðu, Nesveg og Lindarbraut og íbúum afhentar sérstakar klöppur til að hvetja hlaupara áfram, en göturnar hafa verið með þeim fjörugustu í hlaupinu, að því er segir í tilkynningu.

„Við ákváðum að prófa að ganga í götur og heilsa upp á íbúa, bæði til að minna á hlaupið og þakka fyrir stuðninginn síðustu ár, en eins og þátttakendur þekkja þá er alveg einstakt að hlaupa eða ganga þessar götur. Íbúar hvetja með þvílíkum látum svo það gleymist næstum að maður sé að púla. Við afhentum líka klöppur til íbúa sem tóku þessu uppátæki mjög vel. Við hittum mikið af fólki og margir sem eru þegar byrjaðir að undirbúa þennan dag með tónlist, vatni eða veitingum,“ segir Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram á morgun og er fjöldi keppenda svipaður, en hærri upphæð hefur safnast í áheitum miðað við sama tíma í fyrra og hægt er að heita á 190 góðgerðarfélög.

Bankastjórinn veitir verðlaun í hlaupinu og stefnir sjálf á 10 kílómetra hlaup. „Það er mikil stemning í bankanum fyrir hlaupinu og fjölmargir starfsmenn skráðir til leiks. Þetta verður skemmtilegur dagur,“ segir Edda, sem sjálf ætlar að hlaupa 21 kílómetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert