Fólk eigi að geta notað peninga

Peningar eða kort?
Peningar eða kort? mbl.is/Golli

„Ég veit ekki til þess að þetta sé beinlínis bannað með lögum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, spurður um greiðslufyrirkomulag hjá Air Iceland Connect. Flugfélagið tekur ekki við peningum í greiðslu fyrir flug heldur eingöngu kortum.

Hins vegar bendir Breki á að í Danmörku eru í gildi lög sem skylda afgreiðslufólki se starfar hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum að taka við seðlum. „Á meðan við erum að notast við peninga finnst mér að fólk eigi að geta notað þá. Ekki nema einhver öryggissjónarmið kæmu í veg fyrir það,“ segir Breki.

Kostnaður við að taka við peningum var eitt af því sem Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, nefndi sem ástæðu fyrir greiðslufyrirkomulaginu í samtali við mbl.is. Breki gefur ekki mikið fyrir þau sjónarmið og segist gjarnan vilja sjá sterkari rök fyrir þeim. Hann bendir á að kostnaður fylgir því að nota greiðslukort bæði fyrir eiganda kortsins sem og þann sem notar þjónustuna s.s. Air Iceland Connect.   

Ráðið ræðir um kosti peninga og greiðslukorta

Breki situr í Greiðsluráði Seðlabanka Íslands sem hefur það hlutverk að fjalla um greiðslumiðlun á Íslandi. „Þetta er eitt af því sem ég mun taka upp á næsta fundi og ræða,“ segir Breki. 

Ráðið var skipað í vor og hafa verið haldnir tveir fundir á þessu ári. Hann segir margt hafi breyst í greiðslumiðlun hér á landi á skömmum tíma. Bæði hefur orðið ný tækni og einnig tóku í gildi ný lög um greiðslumiðlun sem hvor tveggja einfaldar málin sem og flækir þau í mörgum tilvikum. Hin ýmsu sjónarmið þurfi því að koma fram í þessum efnum, að sögn Breka. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina