Lampi úr fataafgöngum á tískuvikunni í París

Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi FÓLKs, ásamt samstarfshönnuðunum Jóni Helga Hólmgeirssyni, …
Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi FÓLKs, ásamt samstarfshönnuðunum Jóni Helga Hólmgeirssyni, Ólínu Rögnudóttur og Theodóru Alfreðsdóttur. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Lampi og borð úr gömlum bómullar- og ullartextíl sem er pressaður saman verða meðal þess sem íslenska frumkvöðlafyrirtækið FÓLK mun kynna á alþjóðlegu stórsýningunni Maison & Objet sem fram fer í París 6.-10. september og er hluti af tískuvikunni þar í borg. 

Hönnuðirnir Jón Helgi Hólmgeirsson, Ólína Rögnudóttir og Theodóra Alfreðsdóttir, hafa þróað vörur í samstarfi við hönnunarfyrirtækið FÓLK, sem stofnað var af Rögnu Söru Jónsdóttur fyrir tveimur árum. 

„Hugmyndin er tvíþætt; í fyrsta lagi að taka hugmyndir og aðferðir um sjálfbærni og samfélagaábyrgð inn í hönnunar- og vöruþróunarferli. Í öðru lagi langaði mig að virkja og skapa stökkpall fyrir íslenska hönnuði til að fá hönnun sína gefna út,“ segir Ragna Sara í samtali við mbl.is. 

Ragna Sara Jónsdóttir stofnaði hönnunar- og frumkvöðlafyrirtækið FÓLK árið 2017.
Ragna Sara Jónsdóttir stofnaði hönnunar- og frumkvöðlafyrirtækið FÓLK árið 2017. Ljósmyndari/Saga Sig

„Bretti upp ermar og fór að vinna“

FÓLK hefur sjálfbærni að leiðarljósi í framleiðsluferlinu, allt frá hönnun- og vöruþróun yfir í framleiðslu, notkun og endurvinnslu. Ragna Sara lýsir hugmyndinni á bak við FÓLK sem eins konar forlagi og ritstjórn fyrir hönnuði og nefnir samstarf rithöfunda og bókaútgáfa sem dæmi til samanburðar. „Hugmyndin var að búa til vörumerki sem gæti þróað hönnun frá hugmynd til framleiðslu og markaðssetningar íslenskrar hönnunar hérlendis og erlendis. Ég hafði lengi unnið við innleiðingu sjálfbærni og samfélagsábyrgðar hjá fyrirtækjum, en þarna varð draumurinn um að stofna eigið fyrirtæki sem framkvæmdi þær áherslur frá upphafi til enda. Þannig að ég bara bretti upp ermar og fór að vinna,“ segir hún og hlær.  

„Þetta ferli, að hanna eina vöru, tekur alveg ótrúlega langan tíma. Frá því að fyrstu hugmyndir eru settar fram þangað til varan kemur í verslanir líða kannski tvö ár. Það er að mörgu að huga í ferlinu og ekkert skrýtið að við séum ekki að framleiða mjög mikið á Íslandi því það er ekki heldur mikil hefð fyrir því ef við berum okkur saman við Danmörku til dæmis,“ segir Ragna Sara.  

Alla hlutina í Living Objects-vörulínunni, sem er hönnuð af Ólínu …
Alla hlutina í Living Objects-vörulínunni, sem er hönnuð af Ólínu Rögnudóttur fyrir FÓLK, má nota á fleiri en einn hátt. Ljósmynd/Kári Sverrisson

Mæta aftur reynslunni ríkari

Hlutirnir gerðust hins vegar töluvert hratt og vörur FÓLKs komu fyrst í verslanir hérlendis í lok árs 2017. Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem FÓLK tekur þátt í Maison & Objet, sem er ein stærsta sýning innanhússhönnunar í Evrópu og dregur að um 95.000 gesti. „Þetta er í annað sinn sem við förum, við fórum fyrst í janúar og sýndum þær vörur sem við erum núna með í sölu,“ segir Ragna Sara.

Markmið ferðarinnar í næsta mánuði er að fá nýja viðskiptavini og dreifingaraðila á nýjum mörkuðum. „Við lærðum alveg fullt síðast. Núna erum við með stærri og flottari bás, enn þá flottari vörur og enn þá meira úrval af íslenskri hönnun. Við erum miklu betur undirbúin.“ Íslenska sendiráðið í París mun einnig leggja hönd á plóg og taka þátt í kynningarstarfinu.    

Fagurfræðin í fyrirrúmi þrátt fyrir endurvinnslu

Á sýningunni munu Ragna Sara og hönnunarteymið kynna fjórar nýjar vörur. Tvo lampa, gólfhillur og borð sem hafa allar verið þróaðar og framleiddar af fyrirtækinu með markmið um sjálfbærni og hringrás hráefna í huga. 

Annar lampinn og borð eru gerð úr endurnýjanlegum efnum, nánar til tekið gömlum bómullar- og ullartextíl sem er pressaður saman og nýtist þannig aftur, í stað þess að enda sem rusl til brennslu eða landfyllingar. Um er að ræða sérstaklega gott dæmi um umhverfisvænar vörur sem styðja markmið nútímans um sjálfbærni og hringrásarhagkerfið til að draga úr kolefnisfótspori og sóun, að sögn Rögnu Söru. 

Lampi hannaður í samstarfi Theodóru Alfreðsdóttur og FÓLKs. Lampinn er …
Lampi hannaður í samstarfi Theodóru Alfreðsdóttur og FÓLKs. Lampinn er úr endurunnum gömlum textíl frá dönskum stofnunum eða ónýttum textíl úr iðnaðarframleiðslu sem hefur verið pressaður saman í plötur sem hafa svipaða eiginleika og MDF. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

„Svo munum við líka sýna nýjar Urban nomad-hillur sem standa á gólfi og eru úr endurunnu stáli og gegnheilum vottuðum evrópskum við. Við erum mjög stolt af því að hlutfall endurunnins hráefnis í okkar vörum er sífellt að aukast,“ bætir hún við. 

Afgangar úr fata- og sængurveraframleiðslu er svo sannarlega ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar litið er á munina, enda einstaklega fögur hönnun sem blasir við. „Við viljum ekkert slá af fagurfræðinni, það er síðan bónus fyrir neytandann að þetta sé umhverfis- og samfélagsvænt,“ segir Ragna Sara.  

Urban Nomad hillur og/eða borð sem eru ekki veggfestar og …
Urban Nomad hillur og/eða borð sem eru ekki veggfestar og eru úr endurunnu stáli, hannaðar af Jóni Helga Hólmgeirssyni. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Hámarka jákvæð áhrif og lágmarka neikvæð áhrif

Markmið FÓLKs er jafnframt að hámarka jákvæð áhrif og lágmarka neikvæð áhrif með vörum sínum. „Við sem neytendur þurfum að hugsa um það sem við kaupum, hvað endist það lengi og hvað verður um vöruna þegar við hættum að nota hana. Þetta er eitthvað sem við hugsum mikið um í hönnunarferlinu. Ég vil sem neytandi hafa valkost um að kaupa vöru sem endist vel og verður ekki byrði seinna meir. Við viljum halda áfram að bæta okkur og setja okkur markmið um hvernig við ætlum að „besta“ hverja hugmynd og það tekur tíma,“ segir Ragna Sara. 

Eins og fram hefur komið er sýningin hluti af tískuvikunni í París og segir Ragna Sara það mikla og skemmtilega viðurkenningu fyrir íslenska hönnun að taka þátt í sýningu af slíkri stærðargráðu. „Þetta er mikill suðupottur og gaman að kynnast fólkinu í bransanum sem er mjög stór,“ segir hún. 

Undirbúningurinn hefur staðið yfir í marga mánuði. „Það er að ótrúlega mörgu að huga og við vonum að þetta gangi sem allra best og við getum farið að sjá íslenska hönnun frá FÓLK í verslunum erlendis á næstunni, vonandi seinna í haust,“ segir Ragna Sara. 

Urban Nomad-gólfhillan er meðal þeirra nýjunga sem kynntar verða á …
Urban Nomad-gólfhillan er meðal þeirra nýjunga sem kynntar verða á Maison & Objet-stórsýningunni í París í byrjun september. Hillan er hönnuð af Jóni Helga Hólmgeirssyni fyrir FÓLK og er úr endurunnu stáli og upprunavottuðum gegnheilum viði. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Grasrótin í hönnun er mjög virk að sögn Rögnu Söru og hæfileikaríka hönnuði er að finna á hverju strái. „Það er ekki hægt að kvarta yfir því, en þegar kemur að þekkingu, ferlum og rekstri í kringum hönnun standa önnur lönd okkur miklu framar. En þetta er spennandi og það eru mjög mikil tækifæri í að þróa þennan vettvang áfram, sem er mikilvægur fyrir hönnun á Íslandi.“

„Það er mikilvægt að við áttum okkur á þeim tækifærum sem felast í því að vinna með íslenska hönnun og hugvit. Með samtakamætti getum við gert svo margt. Við eigum fullt af hæfileikaríkum hönnuðum sem við trúum að geti fengið frábært tækifæri til að hanna fyrir heiminn í samstarfi við okkar vaxandi vörumerki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert