Stormviðvörun á höfuðborgarsvæðinu

Vonandi munum við ekki sjá þetta gerast á morgun.
Vonandi munum við ekki sjá þetta gerast á morgun. Ljósmynd/Magnús Ásmundsson

Gefin hefur verið út gul stormviðvörun um sunnan- og vestanvert landið á morgun en spáð er 30-35 m/s í hviðum á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og Eyjafjöllum. Höfuðborgarbúar eru beðnir um að ganga frá lausum munum, svo sem garðhúsgögnum og trampólínum til að forðast tjón. 

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar hvessir um og upp úr hádegi og verður veðrið verst á milli 13 og 16 á morgun.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi, 15-23 m/s. Viðvörunin gildir þar frá 15 til 23 á morgun.

Á Suðurlandi gildir viðvörunin til miðnættis annað kvöld en þar er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi 15-23 m/s. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Þar er einnig spáð talsverðri eða mikilli rigningu.Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.

Á Suðausturlandi er spáð mikilli rigningu og búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.

Á miðhálendinu er spáð hvassviðri eða stormi, 18-23 m/s með snörpum vindhviðum við fjöll. Varasamar aðstæður fyrir ferðamenn og útivistarfólk. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert