Viðrar ágætlega til Menningarnætur

Menningarnótt Reykjavíkurborgar er haldin hátíðleg í dag.
Menningarnótt Reykjavíkurborgar er haldin hátíðleg í dag. mbl.is/Hari

Útlit er fyrir hæga breytilega átt á mestöllu landinu í dag, laugardag, og væntanlega verður skýjað að mestu og dálitlir skúrir á víð og dreif.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Austanlands verður eilítið ákveðnari vindur, en þar eru horfur á norðan kalda með þokusúld eða rigningu. Hiti víða á bilinu 10 til 15 stig, en sólríkast og hlýjast verður þó væntanlega á Suðausturlandi, þar sem hiti gæti náð 18 til 19 stigum.

Skýjað verður á höfuðborgarsvæðinu í dag en örlítil sól brýst …
Skýjað verður á höfuðborgarsvæðinu í dag en örlítil sól brýst fram í kvöld samkvæmt spákorti Veðurstofunnar. Kort/Veðurstofa Íslands

Á morgun dregur til tíðinda í veðri, en þá gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt og samfara vindum gengur myndarlegt úrkomusvæði yfir. Rigna mun talsvert eða mikið sunnanlands, en á Norður- og Austurlandi verður ágætt veður fram eftir degi, mun hægari vindur og þurrt. 

Hyggilegt að ganga frá lausum munum

Annað kvöld má þó búast við strekkingsvindi á þessum stöðum og að fari að rigna, en ekki eins mikið og á landinu sunnanverðu.

Hvassviðri líkt og það sem búist er við á morgun myndi ekki þykja tiltökumál um miðjan vetur. Við lok sumars er tjónnæmi af völdum vinds meira vegna margskonar hluta sem hafðir eru útivið yfir sumarið. Það væri því hyggilegt að ganga frá lausum munum svo þeir fjúki ekki á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Gengur í suðaustan 13-20 m/s með talsverðri eða mikilli rigningu. Mun hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi fram undir kvöld. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Norðausturlandi. 

Á mánudag:
Sunnanátt, víða 10-15 m/s. Rigning og hiti 8 til 12 stig, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert með hita að 18 stigum. 

Á þriðjudag:
Suðlæg átt, skýjað með köflum og skúrir, en rigning suðaustantil á landinu. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á miðvikudag og fimmtudag:
Breytileg átt og skúrir eða dálítil rigning í flestum landshlutum. Hiti 8 til 14 stig. 

Á föstudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með vætu, en þurrt sunnan heiða. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert