Ályktun Íslands braut ísinn

Justine Balene, íbúi á Filippseyjum og formaður ungliðahreyfingarinnar Akbayan Youth, …
Justine Balene, íbúi á Filippseyjum og formaður ungliðahreyfingarinnar Akbayan Youth, fagnar ályktun Ísland í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Hún sendi stjórnvöldum þau skilaboð að umheimurinn fylgist með og standi ekki á sama um drápin á Filippseyjum. Ljósmynd/Aðsend

„Ástandið er því miður enn mjög slæmt. Dráp stjórnvalda halda áfram og hugmyndasmiður stríðsins er nú orðinn þingmaður.“ Þetta segir Justine Balene, íbúi á Filippseyjum, aðspurður um áhrif yfirlýsingar mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var í sumar að frumkvæði Íslands, þess efnis að rannsaka beri hið svokallað stríð gegn fíkniefnum sem filippseysk stjórnvöld há.

Stríðið hefur staðið yfir frá árinu 2017, ári eftir að Rodrigo Duterte tók við embætti forseta landsins. Í kosningabaráttunni gerði hann fíkniefnasala og -neytendur að sínu helsta skotmarki og lofaði landsmönnum gulli og grænum skógum ef takast mætti að útrýma þessum hópum.

„Við erum í raun enn eitt fórnarlamb bylgju einræðistilburða [e. authoritarianism] þar sem valdhafar velja út sérstakan hóp, skrímslavæða hann og gera ábyrgan fyrir öllum vandamálum þegnanna,“ segir Justine. Í Bandaríkjunum veitist Trump að innflytjendum, en þeim sé ekki fyrir að fara í sama mæli á Filippseyjum.

Rodrigo Duerte, forseti Filippseyja, hefur meðal annars líkt sjálfum sér …
Rodrigo Duerte, forseti Filippseyja, hefur meðal annars líkt sjálfum sér við Hitler. „Hitler drap þrjár milljónir gyðinga. Nú eru þrjár milljónir eiturlyfjafíkla á Filippseyjum,“ hefur hann látið hafa eftir sér. Hið rétta er að sex milljónir gyðinga létu lífið í helförinni. AFP

Blórabögglar skotmörk til að afvegaleiða umræðuna 

Spurður hvað hann telji að vaki fyrir forsetanum segist hann telja markmiðið fyrst og fremst að þrengja að lýðræðinu og auka veg forsetans sjálfs og fylgdarmanna hans. Fíkniefnanotendur, hópur sem stendur halloka í samfélaginu, séu einfaldlega blórabögglar til að dreifa athyglinni frá öðrum málum og réttlæta þau skref sem tekin séu í einræðisátt.

Justine nefnir Mannréttindaskrifstofu Filippseyja sérstaklega. Hún hafi vogað sér að gagnrýna aðgerðir forsetans og uppskorið fjárlög upp á um 20 dali á síðasta ári, smáaura sem ætlað er að lama starfsemi hennar.

Ályktun Íslands er stórt skref, segir Justine. Með því hafi alþjóðasamfélagið sent út þau skilaboð að heimurinn fylgist með filippseyskum stjórnvöldum og þær fái ekki að komast upp með hvað sem er.

Ríkisstjórn Filippseyja hefur enda farið hörðum orðum um ályktunina og kallaði Duterte Íslendinga „hálfvita og hórusyni“ sem borðuðu bara ís.

Sagðist hann í síðasta mánuði íhuga alvarlega að slíta öll stjórnmálatengsl við Ísland, en ekkert hefur spurst af þeim vangaveltum síðan.

Þrengt að lýðræðinu

Ályktun Íslands var að sögn Justines, fyrsta alþjóðlega aðgerðin vegna stríðsins, en meira en 30.000 manns hafa fallið í valinn, einkum óbreyttir borgarar og virðist oft lítið fara fyrir eiturlyfjabaráttunni. „Hún braut ísinn.“ Nú verði að sjá hvað kemur út úr rannsókninni.

Filippseyska þingkonan Leila de Lima lagði árið 2017 fram fyrirspurn í þinginu um mannfall af völdum stjórnvalda. Í kjölfarið var hún tekin höndum og hefur nú í tvö ár dúsað í fangelsi án dóms og laga. De Lima var í fyrra sæmd mannréttindaverðlaunum Sameinuðu þjóðanna auk þess að hljóta frelsisverðlaun Alþjóðlegu frjálslyndissamtakanna.

Leila de Lima, þingkona Frjálslynda flokksins á filippseyska þinginu, hefur …
Leila de Lima, þingkona Frjálslynda flokksins á filippseyska þinginu, hefur dúsað í fangelsi í tvö ár vegna andstöðu við stefnu forsetans. AFP

12 blaðamenn hið minnsta hafa verið myrtir í landinu frá árinu 2017. Þá hefur ritstjórinn Maria Ressa, sem komið hefur upp um spillingu innan stjórnkerfisins, þurft að dúsa í fangelsi um hríð. Hún gengur nú laus gegn tryggingu, en Justine segir að þrýstingur alþjóðasamfélagsins skýri það.

Að hans sögn rekur forsetinn þéttriðið net á samfélagsmiðlum þar sem fölskum fréttum um stöðu mála er dreift, andstæðingar forsetans sagðir vinna fyrir erlendar leyniþjónustur og þiggja mútur. Þannig hefur fölskum myndböndum af fyrrnefndri þingkonu, Leilu de Lima, verið dreift á netinu þar sem hún „viðurkennir“ að vera eiturlyfjaneytandi sem vinni með eiturlyfjasölum.

Duterte forseti hefur skipað margar af klappstýrum sínum úr bloggheimum til æðstu metorða innan filippseysks stjórnkerfis án þess að þeir hafi reynslu eða þekkingu til að gegna embættunum.

Mótmælendur söfnuðust saman í höfuðborginni Manila í síðasta mánuði til …
Mótmælendur söfnuðust saman í höfuðborginni Manila í síðasta mánuði til að lýsa skoðun sinni á framferði forsetans. AFP

„Ég trúi því að þessi tilraun [stjórnvalda] snúist í höndunum á þeim,“ segir Justine. Filippseyingar styðji ekki morðin og margir, einkum ungt fólk, taki nú þátt í aðgerðahópum sem vinna gegn forsetanum og hafa það að markmiði að steypa honum af stóli í næstu kosningum, árið 2022.

Þar er við ramman reip að draga því bandalag Duterte forseta hefur sterkan meirihluta í öldungadeild þingsins, 20 af 24 sætum, en þó aðeins 53% sæta í neðri deildinni. „Okkar verk er að fá ungt fólk til að skrá sig á kjörskrá, upplýsa það um stöðu mála og hvernig það geti haft áhrif á samfélagið,“ segir Justine, sem er formaður ungliðahreyfingar Akbayan, jafnaðarmannaflokks Filippseyja, sem situr í stjórnarandstöðu. Hreyfingin birti í síðasta mánuði, ásamt Ungum jafnaðarmönnum á Íslandi, yfirlýsingu þar sem ályktun Íslands í mannréttindaráðinu var fagnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina