Bústaður brann til kaldra kola

Slökkviliðsmenn að störfum í Holtsdal á Barðaströnd.
Slökkviliðsmenn að störfum í Holtsdal á Barðaströnd.

Eldur kom upp í sumarbústað á Barðaströnd síðdegis og að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra, tókst ekki að bjarga bústaðnum en allt tiltækt slökkvilið tók þátt í slökkvistarfinu, alls átján manns, auk lögreglu og sjúkraliðs.

Slökkviliðmenn frá Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, tóku þátt í slökkvistarfinu. Að sögn Davíðs var bústaðurinn mikið brunninn þegar slökkviliðið kom á vettvang á sjöunda tímanum og er ljóst að hann er ónýtur. Enginn var í bústaðnum þegar eldurinn kom upp.

Sumarbústaðurinn í Holtsdal brann til kaldra kola.
Sumarbústaðurinn í Holtsdal brann til kaldra kola.

Að sögn Davíðs er bústaðurinn á Barðaströnd, rétt innan við Kleifaheiði (í Holtsdal), og er mikill gróður allt í kringum bústaðinn. Svo vildi vel til að það hefur rignt í dag þannig að ekki urðu miklar gróðurskemmdir en mjög þurrt hefur verið á Barðaströndinni í sumar. 

mbl.is