„Einfalt og sjálfsagt“ að sleppa kjöti

Margrét Björgvinsdóttir sjálfboðaliði bauð upp á niðurskorna ávexti á síðasta …
Margrét Björgvinsdóttir sjálfboðaliði bauð upp á niðurskorna ávexti á síðasta námskeiði. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum í rauninni búin að vera að gæla við þetta og verið hálfkjötlaus mjög lengi. Við vinnum með mikið af ungu fólki og það hefur hreinlega færst í aukana að sjálfboðaliðar okkar sem og nemar séu grænmetisætur og vegan,“ segir Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri AFS á Íslandi.

Stjórn AFS á Íslandi tók nýlega ákvörðun um að gera samtökin kjötlaus, það er að segja, að bjóða ekki upp á kjöt á námskeiðum og viðburðum á vegum samtakanna.

„Sjálfboðaliðarnir okkar byrjuðu á þessu fyrir löngu síðan en svo kom upp þessi hugmynd að taka skrefið til fulls, ekki síst vegna þeirrar umræðu um umhverfismál sem er búin að vera í gangi,“ segir Sólveig, en ákvörðunin var aðallega tekin með það að markmiði að minnka kolefnisspor samtakanna.

Frá komunámskeiði skiptinema AFS á Íslandi 2019-2020.
Frá komunámskeiði skiptinema AFS á Íslandi 2019-2020. Ljósmynd/Aðsend

„Við viljum vera umhverfisvænni og í raun krefjast sjálfboðaliðarnir okkar þess og unga fólkið. Þetta er einfalt og sjálfsagt skref, að okkur finnst.“

AFS á Íslandi er hluti af mun stærri samtökum AFS sem stunda starfsemi í 99 löndum um heim allan og eru einna þekktust fyrir að halda utan um skiptinám fyrir ungt fólk.

Senda engan í helgarferð til Dallas

„Það sem við erum þekktust fyrir er að senda fólk út um allar trissur í flugvélum, sem er kannski ekki það umhverfisvænsta,“ segir Sólveig, en bendir á að samtökin notist í auknum mæli við lestarsamgöngur þar sem það er hægt, svo sem á meginlandi Evrópu.

„Það er ekki eitthvað sem við hér á Íslandi getum gert, en aftur á móti erum við auðvitað ekki að senda neinn í helgarferð til Dallas. Við erum að senda fólk í lengri tíma sem byr inni á fjölskyldum og vegum þannig upp á móti.“

Með því að gera samtökin kjötlaus segir Sólveig samtökin vilja taka afstöðu og setja fordæmi fyrir önnur samtök og fyrirtæki. 

„Án þess að vera einhver umhverfisfræðingur þá sýna vísindin okkur að það sem þarf að gera er að draga úr neyslu kjöts og við viljum gera það sem í okkar valdi stendur.“

mbl.is