Ekki bundinn af samkomulaginu

Formaður VR, Raganr Þór Ingólfsson, segir orðalag samkomulags við stjórn …
Formaður VR, Raganr Þór Ingólfsson, segir orðalag samkomulags við stjórn LV ekki binda hendur félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stéttarfélagið ekki hafa viðurkennt óðeðlileg afskipti af ákvörðunum stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) – þegar umboð stjórnarmanna var afturkallað í kjölfar ákvörðun stjórnar um að hækka vexti á ákveðnum verðtryggðum lánum – með því að fallast á sjónarmið um að „slík inngrip heyri nú sögunni til.“

Segir formaðurinn að samkomulag milli VR, LV og fráfarandi stjórnarmönnum LV – sem tilnefndir voru af VR – sé „fullnaðarsigur“ fyrir stéttarfélagið og að með samkomulaginu hafi VR ekki skuldbundið sig til þess að grípa ekki til sambærilegra aðgerða á nýjan leik.

Þá stendur VR fast á því að hafa verið „í fullum rétti“ til þess að afturkalla umboð stjórnarmannanna.

Ákvörðun sjóðsins leiddi til afturköllunar

„Í sjálfu sér lít ég á þetta sem blauta tusku framan í verkalýðshreyfinguna, það sem við stöndum fyrir og það sem við erum að reyna að gera,“ hafði mbl.is eftir Ragnari Þór þriðja júní er hann var inntur álits á ákvörðun stjórnar LV frá 24. maí um að hækka breytilega verðtryggðra vaxta sjóðsfélagalána úr 2,06% í 2,26% í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að lækka stýrivexti.

Í kjölfarið, eða 18. júní, ákvað síðan fulltrúaráð VR að afturkalla umboð þeirra stjórnarmanna í stjórn LV sem VR skipar.

Þann 19. júní sagði Ragnar Þór „Þegar að við verðum uppvís að því að sjóður sem við erum svona nátengd sjálf er að vinna augljóslega gegn þeirri vegferð sem við erum að fara, þá verður að bregðast við með einhverjum hætti.“

Hófust þá deilur um það hvort afturköllunin væri lögmæt og leit Fjármálaeftirlitið (FME) svo á að skipaðir stjórnarmenn væru enn í stjórn LV þar sem ákvörðun um afturköllun væri tekin af fulltrúaráði VR en ekki stjórn félagsins. Því áliti var VR ósammála þar sem stjórn væri heimilt að framselja skipunarvaldið til fulltrúaráðs samkvæmt skipulagsreglum VR.

Hlaut mikla gagnrýni

Sama dag, 19. júní, ákvað FME að birta tilkynningu á vef sínum þar sem áréttað var að óheimilt væri fyrir stjórnarmenn lífeyrissjóða myndu beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir yrðu nýttir í öðrum tilgangi en lýst er í lögum.

Tjáði Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar LV, mbl.is í kjölfarið að afskipti VR af störfum stjórnar sjóðsins væru „óæskileg.“ Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sagði „hæpið“ að aðgerðir VR stæðust lög og að stjórnir lífeyrissjóða ættu að vera sjálfstæðar í sínum störfum samkvæmt lögum.

Þá sagði Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, að það væri með ákvörðun VR verið að „grafa undan sjálfstæði stjórnar eins stærsta fjárfestingasjóðs Íslands.“ Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, sagði „þetta mikla óheillaþróun.“

Komust að samkomulagi

VR stefndi stjórn LV og FME 26. júlí fyrir að viðurkenna ekki lögmæti afturköllun umboðs stjórnarmanna LV og var farið fram á flýtimeðferð sem Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti. Stóð til að fyrirtaka yrði í málinu í næstu viku.

Í fyrradag náðist hins vegar samkomulag milli deiluaðila um að þeir stjórnarmenn sem nú sitja í stjórninni í nafni VR láti af störfum og í stað þeirra taki sæti í stjórninni nýir stjórnarmenn samkvæmt ákvörðun VR frá 14. ágúst. Þá var dómsmálið látið niður falla.

„VR fellst á sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins um að óæskilegt sé að þeir sem fara með vald til tilnefningar í stjórn sjóðsins hlutist til um ákvarðanir sjóðsstjórnar með því að skipta út stjórnarmönnum áður en kjörtímabili þeirra lýkur og vonar að slík inngrip heyri nú sögunni til,“ sagði í tilkynningu frá VR vegna samkomulagsins.

Orðalagið bindur ekki hendur VR

Er VR með þessum orðum að viðurkenna að félagið hafi haft í óeðlilegum afskiptum af störfum stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þar sem afturköllun umboðsins kom í kjölfar vaxtaákvörðun stjórnar?

„Alls ekki. Við erum að taka undir þau sjónarmið að það sé óheppilegt að skipun þeirra sé inngrip með þessum hætti. Eftir stendur að við erum í fullum rétti og vorum í fullum rétti að gera það sem við vorum að gera,“ svarar Ragnar Þór.

„Ég á svo sem ekki von á því að við þurfum að fara í slík inngrip aftur, ég vona að við þurfum ekki að gera það. En samkvæmt þessari yfirlýsingu fellst engin bindandi stefnubreyting félagsins, annað en það að við tökum undir sjónarmið FME vegna málsins.“

Hann segir VR enn skipunaraðila sem hefur heimild til þess að skipta stjórnarmönnum út. „Það er ekki bindandi yfirlýsing í orðalaginu sem er samin af lögmanni VR og lögmanni LV. Þá er ekkert í orðalaginu sem bindur hendur okkar við að taka slíkar ákvarðanir aftur, þó við tökum undir sjónarmiðin. Við getum alveg tekið undir sjónarmiðin um að ætti að gera hlutina öðruvísi.“

„Við stöndum fast á því að við höfum verið í fullum rétti að gera þetta,“ ítrekar formaðurinn og telur það að lögmaður LV hafi leitað til VR til þess að ná sátt í málinu bendi til þess að VR hafi haft „mjög sterkan málstað að verja.“

Heimilt að afturkalla að vild

Ragnar Þór segir nýjar reglur lífeyrissjóðsins sem með skýrari hætti heimila skipunaraðferð VR vera nú til umfjöllunar hjá fjármálaráðuneytinu.

„Þegar nýjar reglur verða samþykktar af fjármálaráðuneytinu um skipun í stjórn lífeyrissjóða, þá eru reglurnar í kringum þetta nokkuð skýrar. Þá taka gildi nýjar reglur þar sem fulltrúaráðið mun staðfesta skipun stjórnarmanna. Þá verður fulltrúaráðinu heimilt að afturkalla umboð stjórnarmanna hvenær sem það vill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert