Flóðbylgjan allt að 80 metrar

Efri myndin sýnir staðsetningu Öskjuvatns á gosbeltinu norðan Vatnajökuls. Jarðfræðikortið …
Efri myndin sýnir staðsetningu Öskjuvatns á gosbeltinu norðan Vatnajökuls. Jarðfræðikortið sýnir útlínur berghlaupsins, sprungur og aldur hrauna sem runnið hafa eftir að jökla leysti á svæðinu. Útlínur og aldur hrauna eru frá Guðmundi E. Sigvaldasyni o.fl. og frá Ástu Rut Hjartardóttur. Upplýsingar um jarðhita eru frá Árna Hjartarsyni og Kristjáni Sæmundssyni. Vegir eru úr IS50-gagnagrunni Landmælinga Íslands, TanDEM-X-hæðarlíkanið í bakgrunni er frá Þýsku geimferðastofnuninni (DLR) Kort/Veðurstofa Íslands

Berghlaupið í Ösku í júlí 2014 er eitt  stærsta berghlaup sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma. Í grein sem birt er í Náttúrufræðingnum er fjallað um jarðfræðilegar aðstæður, flóðbylgjuna sem fylgdi hlaupinu og áhrif mögulegra flóðbylgja vegna skriðufalla við Öskjuvatn.

Líkanreikningar voru notaðir til þess að herma flóðbylgjuna af völdum berghlaupsins og er það í fyrsta skipti sem slíkir reikningar eru notaðir hér á landi. Sambærilega reikninga er unnt að nota til þess að meta hættu af völdum skriðufalla út í stöðuvötn og jökullón annars staðar á landinu og meta hættu af þeirra völdum.

Öskjuvatn er í Dyngjufjöllum sem eru á gosbeltinu um 80 km norðan Vatnajökuls. Öskjuop sem myndaðist í gosi árið 1875 umlykur vatnið sem er eitt hið dýpsta á landinu. Öskjubarmarnir eru sprungnir og jarðlög víða óstöðug. Berghlaupið kom af stað flóðbylgju sem náði víða 20–40 m hæð og allt að 70–80 m á stöku stað. Bylgjan gekk hundruð metra inn á flatlendið suðaustan við Víti og víðar, en Víti er vinsæll áningarstaður ferðafólks. Hlaupið varð að kvöldi 21. júlí 2014 og voru engin vitni að því en það kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og hvítur mökkur sást í fjallaskálanum Dreka, í um 10 km fjarlægð, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands þar sem fjallað er um greinina í Náttúrufræðingnum.

Berghlaupið kom úr 370 m hárri suðausturbrún öskjunnar. Brotsárið er um 900 m breitt efst en breidd hlaupsins þar sem það gekk út í vatnið um 550 m. Berghlaupstungan á botni Öskjuvatns er víða um 600 m breið. Hún nær um 2,1 km út í vatnið og eru neðstu 800 m tungunnar um 8 m að þykkt. Heildarrúmmál efnis sem fór á hreyfingu í hlaupinu er talið um 20 milljónir m3 og er það með stærstu berghlaupum sem þekkt eru á sögulegum tíma á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert