Hlupu með eldingar á eftir sér

Arnar Garðarsson, Örn Gunnarsson, Bára Agnes Ketilsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir
Arnar Garðarsson, Örn Gunnarsson, Bára Agnes Ketilsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir Ljósmynd/Aðsend

„Upplifunin var einstök. Þetta var eiginlega rosalegt. Það var mjög heitt en byrjaði að rigna í startinu og svo skellur á svakalegt þrumu- og eldingaveður og er nánast allan tíman á meðan við erum að hlaupa. Eldingarnar voru eins og klær yfir allan himininn og allt lýstist upp. Manni brá því þetta var svo mikið. Við biðum alltaf eftir að hlaupinu yrði aflýst,“ segir Bára Agnes Ketilsdóttir sem lýsir miðnætur-hálfmaraþoni í Serbíu sem hún tók þátt í ásamt þremur öðrum Íslendingum í sumar.

Bára segir aðra hlaupara ekki hafa kippt sér eins mikið upp við hamaganginn í veðrinu eins og Íslendingana. Úrkoman sem féll var ekki eingöngu í formi rigningar heldur féllu einnig él og klakar til jarðar. Þakið á bílaleigubíl sem þau leigðu skemmdist eftir að hagl og klaki hamraði á þaki bílsins. Rauð viðvörun hafi verið gefin út á sama tíma og hlaupið fór fram og mælst til þess að fólk ætti ekki að vera á ferð í fjalllendi þar sem hætta væri á að verða fyrir eldingu.

Góð braut til að bæta tímann   

Þrátt fyrir þessar aðstæður hafi hópurinn haft gaman af hlaupinu, sérstaklega eftir á og verður það eflaust lengi í minnum haft. Brautin þykir sérlega góð til að bæta tímann sinn því hlaupið er á svokallaðri tartarbraut að stórum hluta. Farinn er sami 7 km hringurinn um íþróttasvæði borgarinnar þvisvar sinnum í hálfu maraþoni en sex í heilu maraþoni. Þrátt fyrir þessar aðstæður bætti að minnsta kosti einn af fjórum í hópnum tímann sinn.

Mikið þrumu og eldingaveður var á þessu svæði í sumar. Bára bendir á að heimamenn hafi haft á orði að þeir hafi aldrei upplifað jafn miklar eldingar yfir sumartímann og raunin var. „Þeir segja að þetta sé ekki eðlilegt ástand,“ segir Bára. Úrhelli og alvöru storm gerði einnig á meðan Íslendingarnir dvöldu í Serbíu en þess á milli var veðrið gott.

Körfuboltaferð til Serbíu í fermingargjöf

Hópurinn sem fór til Serbíu samanstóð af foreldrum og drengjum sem spila körfubolta með 8. flokk í Fjölni. „Við foreldrarnir ákváðum að gefa þeim í fermingargjöf ferð í körfuboltaskóla hér í Serbíu sem þykir mjög góður,“ segir Bára. Hún tekur fram að foreldrar drengjanna í hópnum hafi skipulagt ferðina sem sé ekki á vegum íþróttafélagsins. Þess má geta að þeir eru þrefaldir Íslandsmeistarar í körfubolta.

Stór hluti foreldranna eru reyndir maraþonhlauparar og því ákváðu þau að slá til og skrá sig í hálfmaraþon í borginni Novi Sad. Þrátt fyrir talsvert ferðalag til borgarinnar hafi það verið alveg þess virði að hlaupa í myrkri, þrumum og eldingum. „Það var mjög gaman að kynnast Serbíu, kynnast fólkinu og ræða við það um stríðið,“ segir Bára.

Alsæl eftir Reykjavíkurmaraþonið

Bára var annars alsæl þegar mbl.is sló á þráðinn til hennar á sunnudagsmorgni. Ástæðan var helst sú að hún hafði tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu daginn áður. „Það er alltaf svo mikil gleði sem fylgir því að taka þátt. Maður er glaður í marga daga á eftir,“ segir hún.

Hún viðurkennir að hlaup gærdagsins hafi verið óvenju sætt því sonur hennar 14 ára gamall hljóp með henni 10 km og stakk móður sína af. „Það er svo mikill heiður að sjá sitt eigið afkvæmi, yngsta barnið vera orðið betra en maður sjálfur. Ég klökknaði oft á leiðinni,“ segir hún hlæjandi.

Skemmtilegt myndband af hlaupinu og þrumu og eldingaveðrinu má sjá hér að neðan. Hópurinn sem fór í körfuboltabúðir til Serbíu í sumar.
Hópurinn sem fór í körfuboltabúðir til Serbíu í sumar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is