Í ýmsu að snúast hjá lögreglu

Átta voru vistaðir í fangaklefa vegna ýmissa brota.
Átta voru vistaðir í fangaklefa vegna ýmissa brota. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menningarnótt fór vel fram í alla staði, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að mikill fjöldi gesta hafi lagt leið sína í miðborg Reykjavíkur og að 141 mál hafi komið upp á löggæslusvæði 1 frá sjö í gærkvöldi og til klukkan fimm í morgun.

Verkefni lögreglu fólust m.a. í aðstoð við borgarana á ýmsan máta, áfengislögum, ölvun á almannafæri, málum sem snúa að barnaverndarlögum, tilkynningum til barnaverndar vegna ólögráða aðila sem lögregla hafði afskipti af og að hella niður áfengi ungmenna sem ekki höfðu aldur til að meðhöndla það.

Fjögur fíkniefnamál voru skráð og fimm líkamsárásir eru til rannsóknar, allar minniháttar. Eitt umferðarslys varð ásamt því sem tveir ökumenn eru grunaðir um ölvun við akstur.

Átta voru vistaðir í fangaklefa vegna ýmissa brota.

mbl.is