Markmiðið að útrýma meiðslum

Fannar Karvel Steindórsson íþróttafræðingur.
Fannar Karvel Steindórsson íþróttafræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að búa til rauðan þráð í gegnum íþróttaferilinn og reyna að lyfta þessu á hærra plan því krakkarnir hafa stundum verið afgangsstærð,“ segir Fannar Karvel Steindórsson íþróttafræðingur og styrktarþjálfari hjá Spörtu heilsurækt. Undanfarið hefur hann ásamt þjálfarateymi sínu verið með sérstaka styrktarþjálfun fyrir börn og unglinga sem æfa íþróttir hjá hinum ýmsu íþróttafélögum landsins og kallast SpartaElite. 

Styrktarþjálfun fyrir þennan aldurshóp er mikilvæg því hún kemur í veg fyrir meiðsl. Síðasta vetur hefur hann verið með styrktaræfingar einu sinni í viku fyrir alla sem æfa handbolta, fótbolta og blak með HK, Handknattleiksfélagi Kópavogs, í 4. flokk og upp úr. Styrktaræfingarnar eru 45 mínútur og eru viðbót við aðrar æfingar. Iðkendurnir eru á aldrinum 11 til 17 ára og voru um 650 talsins síðasta vetur.

Hjólbörur reyna á styrk.
Hjólbörur reyna á styrk. Ljósmynd/Aðsend

Svipaður fjöldi iðkenda fer í gegnum þetta prógramm núna í vetur. HK er fyrsta stóra íþróttafélagið sem gerir samning við Spörtu og gildir hann til næstu tveggja ára. Auk HK hafa fjölmörg önnur félög nýtt sér SpörtuElite m.a. Fram, Þróttur og Haukar svo fáein séu nefnd. 

Síðustu 5 til 6 ár hefur hann verið að þróa SpörtuElite. „Það eru nokkur félög farin að átta sig á þessu. Eins og staðan er núna erum við í viðræðum við fleiri félög sem við erum spennt að vinna með,“ segir hann. Hann bendir á að ríkjandi viðhorf hafi verið að þegar krakkar koma upp í eldri flokka eigi þeir að kunna að beita sér rétt til dæmis í ólympískum lyftingum en það sé langt frá því að vera raunveruleikinn. Hann segir brýnt að stunda styrktarþjálfun því hún getur komið í veg fyrir meiðsl.

Upp úr 8 til 9 ára aldri stirðna og stífna börn  

„Hjá yngstu krökkunum erum við ekki eins mikið að einblína á styrkinn sjálfan þó að þau styrki sig alltaf eitthvað en aðalatriðið er að liðka þau til og kenna þeim að beita sér. Upp úr 8 til 9 ára fara þau að stirðna og stífna ósjálfrátt ef þau eru bara í handbolta eða fótbolta eða einhæfri hreyfingu. Við erum að kenna þeim að hreyfa sig því það vantar oft upp á. Þau kunna ekki að lenda og bremsa sig. Við kennum þeim lendingartækni svo þau geti notað þann kraft sem þau búa yfir og forðast meiðsl eins mögulega og hægt er,“ segir hann.

Líkamlegur munur er á kynjunum og þarf sérstaklega að kenna stúlkum lendingartækni því t.d. mjaðmagrindin er öðruvísi. Konur í íþróttum eru einnig í meiri hættu á að slíta krossbönd. „Á ákveðnum aldri stækkum við hratt að allt sem heitir tækni og mýkt hverfur. Það þarf að innprenta þetta aftur í íþróttafólk,” segir hann. 

Ungir og efnilegir íþróttamenn leggja sig fram í styrktarþjáflun.
Ungir og efnilegir íþróttamenn leggja sig fram í styrktarþjáflun. Ljósmynd/Aðsend

Markmiðið er að útrýma öllum meiðslum

Eftir því sem íþróttafólk býr yfir meiri styrk því minni líkur eru á að það verði fyrir meiðslum þ.e.a.s. þeim sem ekki eru tilkomin vegna samstuði við aðra. „Við megum ekki við því að missa út íþróttafólk vegna þessara atriða í þjálfun. Við erum svo fámenn að við þurfum á öllum að halda sem vilja vera með. Við megum ekki við því að missa út næstu Gylfa Sig, Martin Hermanns eða Guðjón Val út af þáttum sem hægt er að hafa áhrif á,“ segir hann. 

Markmiðið er að útrýma öllum meiðslum. „Það er gerlegt en erfitt,“ segir hann. Hann stýrir styrktarþjálfun karlaliðs Hauka í handbolta sem hefur verið sigursælt undanfarið og hafa farið meiðslalausir í gegnum heilt tímabil. Hann segir þann árangur einstakan í sjálfu sér, þarna hafi allt smollið saman; mikil vinna hjá liðinu, góðan liðsanda og heppni. 

Hann talar af reynslu því hann er í starfi hjá HSÍ sem styrktarþjálfari landsliða, stýrir s.s.allri styrktarþjálfun allra handboltalandsliða Íslands. Hann vinnur einnig hjá KSÍ sem styrktarþjálfari allra dómara sem dæma undir merkjum sambandsins. Hann hefur auk þess verið með marga af þekktustu íþróttamönnum landsins í styrktarþjálfun sem keppa bæði í einstaklingsgreinum sem og hópíþróttum.  

Hægfara þróun

Hann segir vitundavakningu eiga sér núna stað en meira þurfi til ef vel á að vera. „Þetta er hægfara þróun. Við erum nokkrum skrefum á eftir t.d. Bandaríkjunum. Styrktarþjálfun er afgangsstærð í þjálfun í íþróttaheiminum. Peningarnir fara fyrst í meistaraflokkana og svo eitthvað niður og síðast í þessa þjálfun. Því miður,” segir Fannar Karvel. Hann er samt sem áður vongóður um breytingar til batnaðar í þessum málum. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is