Örmagna ferðamaður á Fimmvörðuhálsi

Björgunarsveitarmenn komu ferðamanni til bjargar. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Björgunarsveitarmenn komu ferðamanni til bjargar. Myndin tengist ekki fréttinni beint. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til þess að koma örmagna ferðamanni á Fimmvörðuhálsi til aðstoðar rétt fyrir klukkan fjögur í dag. „Hann var orðinn mjög kaldur og hrakinn,“ segir Guðbrandur Örn Arnarsson, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is.

Guðbrandur segir greiðlega hafi gengið að koma ferðamanninum til aðstoðar þar sem hanna hfi gefið upp greinargóðar upplýsingar um hvar hann var staddur. „Það er leiðinda veður á Fimmvörðuhálsi, eins slæmt og það getur orðið. Það er viðbúið að fólk sem er að ferðast þar í dag verði örmagna, þetta eru aðstæður sem kannski ekki allir þekkja.“

Þá voru björgunarsveitarmenn einnig fengnir til þess að aðstoða húseigenda í Hafnarfirði um klukkan hálf sex. Húseigandinn hafði reynt að tjóðra sjö til átta metra tré, en það gekk illilega og féll tréð. Ekki er vitað til þess að skemmdir á eignum hafi orðið vegna þessa.

mbl.is