Gætu bætt metið um 10 milljónir

Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hafa safnað 164,9 milljónum króna í …
Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hafa safnað 164,9 milljónum króna í áheit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður spennandi að sjá hvernig þetta endar. Upphæðin er komin vel yfir metið frá í fyrra og við erum mjög ánægð með það,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur.

Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hafa safnað rúmum 165 milljónum króna í áheit, en metið frá í fyrra var 156,9 milljónir.

Að sögn Önnu Lilju eru áheit enn að berast. „Ég var einmitt að tala við Isavia hérna áðan. Þeir eru að leggja 50% ofan á þau áheit sem starfsfólk þeirra hefur safnað, sem er mjög skemmtilegt.“

„Svo eru einhverjir sem ætluðu að heita meira ef hlaupararnir næðu ákveðnum tíma o.s.frv., svo það eru enn að detta inn áheit bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir Anna Lilja.

Því er ekki ólíklegt að metið verði slegið um 10 milljónir þegar yfir lýkur, en lokað verður fyrir áheitasöfnunina á miðnætti.

Trúðu ekki að þau næðu 150 milljónum

„Við erum svakalega ánægð með þennan árangur, hann er framar vonum. Við héldum í fyrra að það væri ekki hægt að fara upp í 150, en að slá það aftur, það er í rauninni alveg magnað.“

Olga Katrín Davíðsdótt­ir Skar­stad hef­ur safnað mestu, 1,4 milljónum króna, en hún hljóp til styrkt­ar litlu syst­ur sinni sem greind­ist með heila­æxli í fyrra. Arn­ar Halls­son hef­ur safnað 981 þúsund krón­um fyr­ir CMT4A-styrkt­ar­sjóð Þór­dís­ar og Agla Sól Pét­urs­dótt­ir hef­ur safnað 959 þúsund krón­um fyr­ir Styrkt­ar­fé­lag krabba­meins­sjúkra barna. 

Hægt er að heita á hlaupara það sem eftir er dags á hlaupastyrkur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert