Himinlifandi eftir fyrsta maraþonið

Jón náði góðum árangri og var fimmti Íslendingurinn í mark …
Jón náði góðum árangri og var fimmti Íslendingurinn í mark á tímanum 02:54:48. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Skrokkurinn er betri en ég reiknaði með en ég er ekki að fara að hlaupa neitt. Mér skilst að maður eigi ekkert að gera neitt, bara láta hann vinna úr þessu í rólegheitunum þannig ég ætla bara að vera rólegur,“ segir Jón Ragnar Jónsson tónlistarmaður sem hljóp sitt fyrsta maraþon á laugardaginn.

Aðspurður hvernig hann fékk þessa flugu í hausinn segist Jón hlusta mikið á hlaðvarp Snorra Björnssonar, sem hafi rætt við Arnar Pétursson hlaupara í tvígang.

„Mér fannst það eitthvað svo magnað dæmi að hlusta á þá tala um hausinn og allt þetta sem skiptir svo miklu máli. Ég ákvað bara að kýla á það og prófa hvernig þetta væri,“ segir Jón. Að sögn tókst honum að halda hausnum jákvæðum alla 42,2 kílómetrana.

Fjölskyldan hjólaði á milli peppstöðva

„Það skiptir máli, ekki leyfa honum að hugsa um hvort þér sé illt einhversstaðar eða hvað. En þetta var töff, síðustu átta kílómetrarnir eða svo, það tók á. Ef ég myndi hlaupa maraþon í dag hefði ég hlaupið þetta aðeins öðruvísi en það er bara það sem maður fær með reynslunni.“

En gæti hann hugsað sér að hlaupa annað maraþon?

„Ég held ég gæti alveg hugsað mér að gera þetta aftur, en hvort það yrði sami sjarminn yfir því, ég veit það ekki. Þetta var svo fallegt allt saman og gaman að upplifa hvað þetta er risastórt batterí og margir sem leggja hönd á plóg,“ segir Jón.

Eftirminnilegast sé þó hinn gríðarlegi stuðningur sem hann fann fyrir frá allskonar fólki. „Svo náttúrulega fjölskyldan mín, hún fór á kostum líka og var með stuðningssveit hérna heima á Lindarbrautinni þegar maður fór þar framhjá og voru svo búin að hjóla og koma sér fyrir hér og þar.“

„Maður veit alveg hvað væntumþykja skiptir miklu máli, en á svona augnablikum þegar maður er á erfiðum hjalla er magnað hvað gott pepp getur gefið manni mikið aukapúst. Ég held það kenni manni svolítið mikið á lífið í leiðinni, hvað klapp á bakið skiptir miklu máli.“

Markmiðið að vera undir þremur tímum

Jón náði góðum árangri og var fimmti Íslendingurinn í mark á tímanum 02:54:48. 

Arnar Pétursson var að þjálfa mig og sendi mér prógram. Hann var búinn að segja mér að ég gæti náð þessum tíma sem ég náði, en ég vissi ekkert hverju það myndi skila mér. Í fyrra hefði þessi tími dugað mér til að ná þriðja sætinu, en guð minn góður, markmiðið var að fara undir þrjá tíma og ég náði því og var himinlifandi, og hvað þá þegar maður heyrir af því að maður hafi verið í fimmta sæti líka, það var æðislegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert