Kominn úr mestu grynningunum

Tekist hefur að koma hvalnum í fjörunni við Eiðistorg um 700 metra frá landi samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg, en hans varð fyrst vart í morgun. Einn hópur frá björgunarsveitunum er enn á svæðinu á báti, en frá því um hádegi hefur verið reynt að koma hvalnum úr fjörunni. Með bátnum er reynt að koma í veg fyrir að hvalurinn, sem er illa áttaður og veiklulegur, syndi aftur í átt að landi.

Dýralæknir metur hver næstu skref verða og hvort hvalnum verði með einhverjum ráðum komið lengra út. Hvalurinn er grindhvalur, ungt karldýr og um þrír metrar að lengd, en sjáanlegar rispur eru á baki hans og kýli við sporð. Eftir hádegið, þegar að flæddi, tókst að koma hvalnum úr fjörunni.

Brösuglega gengur að vísa veginn

„Hann er kominn lengra út, um 700 metra frá landi, úr mestu grynningunum. Það gengur brösuglega að vísa honum veginn,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Það er einn bátur frá okkur á svæðinu og á meðan metur dýralæknir hver næstu skref eru og hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma honum lengra út,“ segir hann.

„Hann virðist ringlaður, hann er ekki alveg að ná áttum, en ekki er búið að taka ákvörðun um framhaldið. Sú ákvörðun verður tekin af vísindamönnunum,“ segir Davíð Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert