„Maður veit aldrei hvað gerist í pólitík“

„Maður veit aldrei hvað gerist í pólitík,“ segir Birgir Ármannsson ...
„Maður veit aldrei hvað gerist í pólitík,“ segir Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við hlökkum til að fara í þessa umræðu og vonumst að sjálfsögðu til að menn sjái að sér og láti orkuauðlindir landsins og landið njóta vafans,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um þingstubbinn svokallaða sem hefst í vikunni.

Þingið mun koma sam­an í þrjá daga til þess að ræða frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur í tengsl­um við þriðja orkupakk­ann og breyt­ingu á raf­orku­lög­um. Að umræðum lokn­um fer fram at­kvæðagreiðsla áður en þingi verður frestað að nýju þangað til nýtt lög­gjaf­arþing kem­ur sam­an 10. sept­em­ber.

Afstaða þingmanna sterkari nú ef eitthvað er

Gunnar Bragi var nýkominn af þingflokksfundi, þegar mbl.is náði tali af honum, þar sem þingmenn flokksins undirbjuggu sig fyrir komandi þingfundi. Spurður hvort að afstaða þingmanna flokksins til þriðja orkupakkans væri sú sama og áður svaraði hann:

„Að sjálfsögðu. Hún hefur bara styrkst ef eitthvað er. Það er engin spurning um það.

Þingmenn Miðflokksins eru allir sem einn á móti innleiðingu þriðja ...
Þingmenn Miðflokksins eru allir sem einn á móti innleiðingu þriðja orkupakkans og hafa styrkst í þeirri afstöðu sinni í sumar ef eitthvað er. mbl.is/Hari

Gefur lítið fyrir ummæli Þórhildar Sunnu

Þórhildur Sunna Ævars­dótt­ir, þing­flokks­formaður Pírata, skaut föstum skotum að þingmönnum Miðflokksins í samtali við mbl.is fyrr í dag. Kallaði hún þá „algjörlega óútreiknanlega“ og útilokaði ekki að þeir myndu virða samkomulag um þinghaldið að vettugi.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef þeir myndu reyna að draga kan­ínu úr sín­um marg­slungna hatti [...] Miðflokk­ur­inn hef­ur áður virt sam­komu­lög að vett­ugi en í þetta skiptið var það skrifað niður á blað þannig að ég held það verði erfitt fyr­ir þá að bakka út úr því en alls ekki ómögu­legt miðað við það sem ég þekki af þeim fé­lög­um. Það er ekk­ert alltaf hægt að treysta á að þeir geri það sem þeir seg­ist ætla að gera,“ sagði Þórhildur meðal annars.

„Virðum öll okkar samkomulög“

Gunnar Bragi lét sér fátt um finnast um þessa orðræðu Þórhildar og vísaði henni til föðurhúsanna. „Ég held það sé rétt að hún skýri þetta nánar því ég veit ekki betur en það sé einmitt hún og restin af stjórnarandstöðunni sem ekki hafa staðið við samkomulag um skiptingu í nefndir gagnvart okkur,“ sagði Gunnar og bætti við:

„Við virðum öll okkar samkomulög að sjálfsögðu, nú sem áður.“

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins vonar að þingmenn sjái að ...
Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins vonar að þingmenn sjái að sér og leyfi landinu að njóta vafans. mbl.is/Hari

Telur alla eða flestalla þingmenn á einu máli

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, býst ekki við öðru en að þinghaldið fari fram með þeim hætti sem samið var um í júní. Hann segir einhug ríkja meðal þingmanna flokksins að styðja innleiðingu þriðja orkupakkans.

Er það meirihlutaákvörðun eða eru allir einstaka þingmenn á þeirri skoðun?

„Það verður hver að svara fyrir sig en ég á ekki von á öðru en að málið muni hljóta stuðnings allra eða svo til allra þingmanna flokksins,“ svaraði Birgir og bætti við:

Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins telur að allir eða flestallir þingmenn ...
Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins telur að allir eða flestallir þingmenn flokksins muni styðja innleiðingu þriðja orkupakkans. Eggert Jóhannesson

„Okkur hefur verið ljóst lengi að málið væri umdeilt meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokksins og það hefur komið fram á fjölmörgum fundum þingmanna með flokksmönnum. En nú er það þannig að þingflokkurinn hefur unnið í langan tíma að þessu máli, farið yfir það fram og til baka, og það hefur ekkert komið fram sem þingflokkurinn telur gefa tilefni til að breyta um afstöðu.“

Hann á ekki von á neinum uppákomum á þingfundum í vikunni. „En maður veit aldrei hvað gerist í pólitík,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina