Óvenjumörg mál á borði flugsviðs

Ljósmynd frá vettvangi banaslyss á Haukadalsflugvelli í lok júlí.
Ljósmynd frá vettvangi banaslyss á Haukadalsflugvelli í lok júlí. mbl.is/​Hari

Á annan tug mála hefur komið inn á borð flugsviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa það sem af er sumars og eru þau óvenjumörg. Alls eru um 30 mál til rannsóknar hjá nefndinni.

„Þetta á það til að koma í bylgjum. Ég ætla nú ekki að tala um það sem var hér áður fyrr þegar meira var um flugslys á Íslandi heldur en er í dag, en svona síðustu 15 ár eða svo er þetta óvenjumikill fjöldi mála,“ segir Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði rannsóknarnefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Fjórir létust í tveimur banaslysum í júní og júlí í sumar. Hjón og sonur þeirra létust þegar vél þeirra brotlenti í Múlakoti 9. júní. Að sögn Ragnars stendur rannsókn yfir. „Við erum að rannsaka flakið og það er í raun ekkert sem ég get tjáð mig nánar um þá rannsókn.“

Aðspurður hvort von sé á bráðabirgðaskýrslu segir Ragnar að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort slík skýrsla verði gefin út.

Bráðabirgðaskýrslur líklega ekki gefnar út

Til skoðunar hafi verið að gefa út bráðabirgðaskýrslu fyrir flugslysið á Haukadalsvelli 27. júlí, þar sem einn lést. „Á nefndarfundi í síðustu viku var hins vegar tekin ákvörðun um að gera það ekki. Það er einfaldlega svo mikið af málum hjá okkur.“

Ragnar segir umrætt flugslys að sama skapi vera í rannsókn. Unnið sé að því að taka viðtöl og safna gögnum. „Við höfum ekki komist í að rannsaka flakið nægilega, einfaldlega vegna þess að við erum með hina vélina í rannsóknaraðstöðunni.“

Hægt en örugglega

„Þetta mun taka sinn tíma. Við erum á fullu að reyna að ganga frá málum sem eru langt komin og koma þeim út til þess að geta einbeitt okkur að þessu, en staðreyndin er sú að það eru einhver 30 mál í rannsókn og það er óvenjumikið eins og er. Það verður bara að taka þetta hægt en örugglega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert