Framsóknarflokkur stillir saman strengi fyrir umræðu um þriðja orkupakkann

Willum Þór Þórsson, varaþingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Willum Þór Þórsson, varaþingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum í óðaönn að undirbúa okkur og svo erum við með þingflokksfund á morgun þar sem við munum stilla strengina endanlega fyrir þetta þing,“ segir Willum Þór Þórsson, varaþingflokksformaður Framsóknar, í samtali við mbl.is. um þingstubbinn svokallaða sem hefst í vikunni.

Þingið mun koma sam­an í þrjá daga til þess að ræða frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur í tengsl­um við þriðja orkupakk­ann og breyt­ingu á raf­orku­lög­um. Að umræðum lokn­um fer fram at­kvæðagreiðsla áður en þingi verður frestað að nýju þangað til nýtt lög­gjaf­arþing kem­ur sam­an 10. sept­em­ber.

Munu fara vel yfir málið á fundi

Spurður hvort að þingmenn Framsóknarflokksins styðji innleiðingu þriðja orkupakkans segir Willum ekki vita til þess að breytingar hafi orðið á skoðunum þeirra frá því í vor.

„Við förum vel yfir það á morgun hvort að eitthvað hafi breyst í málsmeðferðinni og umfjöllun nefndanna tveggja og förum yfir þær greinargerðir sem hafa komið fram. Ég veit ekki af neinum breytingum á þessum tímapunkti,“ segir Willum.

Munu ræða kosti þess að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu

Spurður um óánægjuraddir frá grasrót flokksins viðurkennir Willum að andstaða sé til staðar í flokknum en málið hafi engu að síður verið vel rætt á félagafundum og miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins.

„Það er andstaða í okkar flokki,“ segir hann en telur að einhugur sé meðal þingmanna flokksins að styðja við málið. „Það var það allavega í vor og ekkert bendir til þess að eitthvað hafi breyst. En stór hluti fundarins í fyrramálið mun fara í umfjöllun um málið og fara yfir hvort eitthvað og þá hvað hafi breyst.“

„Það hafa verið uppi skoðanir um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo framvegis þannig við ræðum það líka,“ bætir hann við að lokum.

Gefur sér að menn standi við samkomulag

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir að ekki muni standa á þingmönnum flokksins að styðja við innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Af okkar hálfu þá var ekkert því til fyrirstöðu að klára þetta tiltekna mál í vor en stjórnarflokkarnir gerðu þetta samkomulag við Miðflokkinn,“ segir hún. Spurð hvort hún telji að þinghald muni ganga vel svarar hún því að samkomulagið sé tiltölulega skýrt sem flokkarnir undirrituðu.

„Mér vitanlega stendur ekkert annað til að hálfu þeirra aðila sem að því standa en að virða það þannig ég ætla ekki fyrirfram að gefa mér það að það verði einhverjar uppákomur eða menn gangi á bak orða sinna,“ bætir hún við.

Hanna Katrín Friðriksson er þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson er þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert