Var rangfeðraður í 29 ár

Ólafur F. C. Rowell er hann var um tvítugt.
Ólafur F. C. Rowell er hann var um tvítugt. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Rowell hafði það alltaf á tilfinningunni að hann væri ekki skandinavískur þrátt fyrir íslenska móður og sænskan föður.

Ólafur, sem er 36 ára, fæddist á Íslandi árið 1983. Móðir hans, sem búið hafði með íslenskum foreldrum í Bandaríkjunum, fór í nokkurra vikna sumarskóla til Þýskalands, þá 19 ára gömul. Hún þurfti einingar í þýsku til að fá inngöngu í hjúkrunarnám á Íslandi.

Á meðan á dvölinni stóð var hún í sambandi við ungan mann frá Ekvador, Francisco að nafni. Eftir að hann lauk námi og fór til síns heima hóf móðirin samband við sænskan mann, Magnus að nafni. Að sumarnámi loknu fór móðir Ólafs til ömmu sinnar á Íslandi og komst hún fljótlega að því að hún væri barnshafandi. Í hennar huga var enginn vafi á að sá sænski væri faðirinn. Hún lét hann vita og skilaboð frá hans hendi voru skýr; honum kom málið ekki við, vildi ekkert með barnið hafa og helst að þungunin yrði rofin.

Faðir hans Francisco Cucalon er hann var um tvítugt. Feðgarnir …
Faðir hans Francisco Cucalon er hann var um tvítugt. Feðgarnir eru sláandi líkir. Ljósmynd/Aðsend

 „Afi var föðurímyndin“

„Mamma var ung þegar hún átti mig en hún er hörð af sér. Við höfðum ekki mikið á milli handanna þegar mamma var í námi, en hún sá alltaf til þess að ég fengi nægan mat en stundum var það á hennar kostnað,“ segir Ólafur, sem hlaut mikinn stuðning frá ömmu sinni og afa sem hann heimsótti oft til Bandaríkjanna. Eftir að þau fluttu til Íslands tóku þau mikinn þátt í uppeldi hans.

„Afi var mín föðurímynd en hann dó 58 ára þegar ég var 10 ára,“ segir Ólafur sem er sáttur við góða barnæsku þar sem hann skorti hvorki ást né umhyggju. Hann segist hafa suðað í móður sinni í kringum 10 ára aldurinn um að fá að sjá mynd af Magnusi ef slík mynd væri til. Móðir hans hefði einu sinni sýnt honum mynd af manni sem var dökkhærður og með sólgleraugu en lítið hafi verið á þeirri mynd að græða. Ólafur segir faðernið hafa verið viðkvæmt umræðuefni. Móðir hans sé krabbi og þegar hún hafi ákveðið eitthvað verði því ekki haggað. Móðir hans hafi ekki viljað tala um Magnus og sagt að Ólafur væri sonur sinn og um það væri ekki meira að segja.

Ólafur með fjölskyldu sinni frá Ekvador. Frá vinstri: Francisco, Ricardo, …
Ólafur með fjölskyldu sinni frá Ekvador. Frá vinstri: Francisco, Ricardo, Sofia, Ólafur og Diego. Myndin var tekin í Chicago árið 2014. Ljósmynd/Aðsend

 „Móðursystir mín var stundum að ýja að því að það gæti verið að ég ætti annan pabba. En ég tók lítið mark á því. Nokkru eftir að langamma dó og farið var í gegnum dótið hennar, hringdi systir ömmu í mig og bað mig að hitta sig. Ég fór til hennar og hún sýndi mér bréf, einhverskonar ástarbréf, frá manni sem þá var við nám í Chicago og hét Francisco. Með bréfinu fylgdi mynd af manni um tvítugt. Þegar ég sá hana fannst mér ég horfa á sjálfan mig á sama aldri. Hann var dekkri en ég, en að öðru leyti fannst mér hann alveg eins,“ segir Ólafur sem skildi þá af hverju hann upplifði sig ekki sem Skandínava. 

Viðtalið í heild má lesa í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert