„Ímyndað menningarstríð yfir engu“

„Matarstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt af öllum flokkum og Eyþór ætti ...
„Matarstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt af öllum flokkum og Eyþór ætti að þekkja til.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þó að borgarfulltrúi meirihlutans hafi lýst áhuga sínum á að draga úr framboði dýraafurða í mötuneytum Reykjavíkurborgar er ekki þar með sagt að það sé stefna meirihlutans eða að til standi að leggja fram tillögu þess efnis.

Þetta segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, í samtali við mbl.is. Samtök grænkera á Íslandi sendu ríki og sveitarfélögum nýlega áskorun þess efnis að minnka eða hætta alveg framboði dýraafurða og steig Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, fram og lýsti stuðningi við áskorunina.

Áskorun Samtaka grænkera á Íslandi, sem og ummæli Lífar á RÚV um að henni þætti þess virði að skoða málið, hafa vægast sagt vakið áhuga og viðbrögð borgarbúa og annarra landsmanna. Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var þar ekki undanskilinn og setti inn færslu á Facebook, sem sjá má neðst í fréttinni, þar sem hann segir flesta sammála um að skólamatur í Reykjavík gæti verið betri, en að í stað þess að bæta matinn ætli fulltrúar „meirihlutans“ að „skerða prótíninnihald fyrir reykvísk skólabörn!“

Stökkvi ekki á hvaða tækifæri sem er til að snúa út úr

Dóru Björt er ekki skemmt yfir viðbrögðum Eyþórs og segir hann blása málið upp. „Hér var einn borgarfulltrúi að tjá sína eigin skoðun og Eyþór velur að stökkva á það og blása upp. Ef maður vill raunverulega stunda ábyrga pólitík stekkur maður ekki á hvaða tækifæri sem er til að snúa útúr og skapa hræðslu um að meirihlutinn vilji stela bílnum fólks eða ræna kjöti af borði barnanna þeirra. Eyþór veit að það er ekki verið að fara að gera þetta.“

„Matarstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt af öllum flokkum og Eyþór ætti að þekkja til. Ef hann gerir það ekki þá er kominn tími til að kynna sér hana. Hún snýst um heilnæmt fæði og að það sé val í boði. Það er það eina sem stendur í okkar stefnu,“ segir Dóra Björt. „Ég lít svo á að hér sé enn einu sinni verið að búa til ímyndað menningarstríð yfir engu.“

Átti hann í alvöru kjötbol inni í skáp?

Þá segist Dóra Björt spyrja sig hvað málið sé með þennan bol. „Mér finnst það bara hallærislegt að fara í einhvern kjötbol og það eina sem ég get hugsað þegar ég sé svona vitleysu er hvort Eyþór Arnalds hafi í alvöru átt kjötbol inni í skápnum hjá sér, eða var hann pantaður sérstaklega til að búa til pólitískt uppþot? Þetta er bara vandræðalegt.“

Dóra Björt gagnrýndi Eyþór í ítarlegri færslu á Facebook og hefur Eyþór svarað fyrir sig með annarri færslu og sagt borgarfulltrúa Pírata segja það „lýðskrum að ég vilji að skólamatur sé með nægu framboði af fiski, skyri, eggjum, kjöti og öðrum landbúnaðarvörum.

Þá minnist hann Braggamálsins og segir Dóru Björt lengi hafa haldið því fram að tölvupóstum tengdum því hafi ekki verið eytt, en að svo hafi komið í ljós að þeim hafi „sannarlega verið eytt.“ „Stundum er betra að spara yfirlýsingarnar og hlusta á málefnalega gagnrýni.

mbl.is