Tjónið líklega meira en talið var

Flugvél frá Mýflugi. Mynd úr safni.
Flugvél frá Mýflugi. Mynd úr safni. Rax / Ragnar Axelsson

„Við erum ekki búin að meta tjónið en þetta er líklega alvarlegra en við reiknuðum með í gær,“ segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, í samtali við mbl.is.  Mýflug rekur sjúkraflugvél sem rakst á gæsager í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í gær. Engan sakaði, en Leifur sagði vélina töluvert skemmda í gær. Virðist nú sem tjón vélar sé meira en þá var talið, eins og að ofan segir. „Fyrstu athuganir benda til þess. Því miður.“

„Vélin flaug reyndar aldrei. Í flugtaksbruninu kom bara fuglahópur og vélin fór beint á hann,“ segir Leifur. Spurður um tjónið segir Leifur að um beyglur á vængjum sé að ræða, og þær þurfi að laga. Hins vegar sé of snemmt að segja til um nákvæmt umfang tjónsins.

Ekkert neyðarástand

Spurður um afdrif sjúklinganna sem átti að flytja segir Leifur að þeir hafi beðið til dagsins í dag. „Ég held þeir séu á leiðinni norður í þessum töluðu orðum. Þetta var ekkert sem var óyfirstíganlegt.“ Segir hann að Mýflug sé með aðra vél, og segir aðspurður að ef staðan hefði verið þeim mun alvarlegri þá hefði verið hægt að redda því.

Mýflug sér um mikinn fjölda sjúkraflugferða. Mynd úr safni.
Mýflug sér um mikinn fjölda sjúkraflugferða. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is