Viðbragðshópur vegna hvala að störfum

Björgunarsveitarmenn reyndu ítrekað að beina hvalnum frá landi í gær, …
Björgunarsveitarmenn reyndu ítrekað að beina hvalnum frá landi í gær, en hann sótti þangað jafnharðan aftur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þó að við séum formlega ekki búin að fá samþykkt nýtt verklag eða séum orðin formlega samþykktur viðbragðshópur þá erum við byrjuð, að reyna að veita upplýsingar útfrá þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur og bæta viðbragðstíma, verkferli og framkvæmd aðgerða.“ Þetta segir Þóra J. Jónasdóttir um viðbragðshóp vegna hvala í neyð, sem starfar þvert á stofnanir og viðbragðsaðila, og var komið á fót í mars. Kom hópurinn meðal annars við sögu þegar grindhval rak að landi í Káravík við Seltjarnarnes í gær.

„Hvalabjörgunarsveit“ kölluðu einhverjir fjölmiðlar hópinn, sem mun vera villandi nafngift þar sem Matvælastofnun (Mast) stóð að standsetningu hópsins og í honum eru fulltrúar frá fjölda stofnana og hagsmunaaðila. 

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag hafa grindhvalakomur verið óvenjutíðar í ár. Vitað er um a.m.k. fimmán tilvik þar sem grindhvalir ýmist gengu á land eða komu mjög nærri landi, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun (Hafró).

Finna upp hjólið í hvert skipti

Þóra, sem er sérgreinadýralæknir hjá Mast og fyrirliði viðbragðshópsins, segir að hópurinn hafi ekki verið sérstaklega settur á fót vegna fjölda grindhvalakoma í ár, enda hafi hann verið kominn af stað fyrir sumarið. Það hafi hins vegar komið sér mjög vel að hópurinn hafi verið kominn af stað, sérstaklega þegar um 50 hvali rak á land við Útskálakirkju í Garði í Suðurnesjabæ fyrr í mánuðinum. 

Um fimmtíu hvalir gengu á land við Garð í Suðurnesjabæ …
Um fimmtíu hvalir gengu á land við Garð í Suðurnesjabæ í byrjun mánaðar. mbl.is/Alfons

Hún segir að ástæðan fyrir því að hópurinn var settur saman sé meðal annars sú að þrátt fyrir að til sé samþykkt verklag opinberra aðila um hvalreka frá 2005, þá hafi það viljað brenna við þegar lifandi hvali hefur rekið nærri landi að upp hafi komið hjá viðbragðsaðilum visst ráðaleysi; við hvaða persónur eigi að hafa samband innan þeirra stofnana sem koma að, hvað eigi að gera og hvernig skuli gera það. „Í gegnum árin hefur svolítið þurft að finna upp hjólið í hvert skipti.“

Ástæða til að kalla teymið saman

„Við viljum taka inn í þennan hóp þá viðbragðsaðila sem hafa þekkingu og kerfi til að bregðast við stærri aðgerðum.“ Nefnir Þóra í þessu dæmi almannavarnadeild lögreglunnar, Landhelgisgæsluna og björgunarsveitir innan Landsbjargar, sem aðila sem hafa oft komið að viðlíka málum. „En það hefur ekki alltaf verið með þeim skipulagða hætti, undirbúningi og þekkingu, sem við teljum vera lykilinn að vel heppnaðri aðgerð. Það vantaði skýra viðbragðsáætlun, og ítarlegri leiðbeiningar og verklag, vegna lifandi hvala í neyð, og það var það sem var ákveðið að breyta og bæta,“ segir hún. 

Formlega hefur hópurinn ekki hafið störf, enda vantar upp á að ný verklagsáætlun sé samþykkt, „en við ákváðum hins vegar, þegar um fimmtíu grindhvalir gengu á land við Garð, að þar væri komin ástæða til að kalla saman teymið og láta reyna á þetta. Það tókst mjög vel. Einnig fengum við þar mikilvæga reynslu, og gátum séð hvað er að virka og hvað þarf að bæta.“

Margir muna eftir hvölunum sem fundust í Löngufjörum fyrr í …
Margir muna eftir hvölunum sem fundust í Löngufjörum fyrr í sumar.
mbl.is