Hlógu að ummælum Ólafs

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu á Alþingi í morgun …
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu á Alþingi í morgun um þriðja orkupakkann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði eftir ræðu Ólafs Ísleifssonar, þingmann Miðflokksins, um þriðja orkupakkann í morgun að hún væri „framhald á sama samhengislausa bullinu og búið er að flytja í þessu máli frá upphafi”.

Hann sagði það hafa verið samdóma álit fræðimanna að hrekja hverja einustu fullyrðingu sem Miðflokkurinn hefur sett fram í málinu. Sagði hann ekkert í málinu framselja ráðstöfun Íslands yfir auðlindum sínum.

Sagði hann að allar aðrar fullyrðingar frá Miðflokknum væru „rakið bull”.

Þorsteinn bætti við að fordæmalaust væri að sjá heilan þingflokk halda úti „jafn öfgafullri, vitlausri og rangri umræðu sem er beinlínis ætlað að blekkja þjóðina í þessu máli”. Sagði hann málið þingflokknum til skammar.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlátur í þingsalnum 

Ólafur sagðist í andsvari sínu hafa hætt að telja þegar Þorsteinn hefði verið búinn að nota orðið „bull” fimm sinnum í ræðunni. Sagði hann málflutning hans „ofsafenginn og öfgakenndan”.

„Það er varla að það taki því að eyða tími Alþingis í slíkt,” bætti hann við og uppskar mikinn hlátur í þingsalnum.

mbl.is