Miklar hræringar kalla á sterka forystu í ráðuneytið

Kort/Morgunblaðið

Nýr dómsmálaráðherra verður kynntur til sögunnar „mjög bráðlega“ ef marka má ummæli sem formaður Sjálfstæðisflokksins lét falla um miðjan þennan mánuð. Er líklegt að það verði gert áður en þing hefst í september, en boðað hefur verið til ríkisráðsfundar 6. þess mánaðar. Verður þetta áttundi ráðherrann til að gegna málaflokknum á tíu árum.

„Frá sjónarhóli opinberrar stjórnsýslu eru þetta ekki kjöraðstæður, en almennt virka stofnanir betur ef þar ríkir stöðugleiki í skipulagi og stöðugleiki í forystu. Almennir lærdómar úr opinberri stjórnsýslu benda því til að þetta sé slæmt fyrir ráðuneytið,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til tíðra ráðherraskipta og uppstokkunar á ráðuneyti dómsmála. Frá árinu 2009 og fram til dagsins í dag hafa sjö ráðherrar starfað þar. Sá sem nú er væntanlegur verður því sá áttundi.

Eru þetta þau Ragna Árnadóttir, Ögmundur Jónasson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ólöf Nordal, Sigríður Á. Andersen og nú síðast Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Eins var ráðuneytinu breytt úr dómsmálaráðuneyti í innanríkisráðuneyti árið 2011 og svo aftur í dómsmálaráðuneyti árið 2017.

Samhliða tíðum ráðherrabreytingum síðastliðin tíu ár segir Gunnar Helgi talsverð átök hafa verið í kringum ráðuneytið og þá málaflokka sem undir það heyra.

„Án þess að hafa kannað það sérstaklega þá hlýtur þetta að vera dálítið erfiður vinnustaður eins og er,“ segir hann og bætir við að íslensk ráðuneyti hafi í gegnum tíðina reitt sig á trausta forystu frá ráðherranum. Þá segir hann dómsmálaráðuneytið vera bæði veikt og fámennt.

Aðspurður segir Gunnar Helgi nú þörf á reynslumiklum ráðherra í dómsmálaráðuneytið.

„Það sem menn hljóta að vilja nú er sæmilega stabíll og traustur ráðherra með öfluga reynslu að baki, einhver sem er ekki nýgræðingur í málaflokknum. Það sem gerist þegar inn kemur ráðherra sem er nýgræðingur er að hann kann ekkert á ráðuneytið og treystir um leið á embættismennina til að lóðsa sig um fyrstu mánuðina hið minnsta. Nú þyrfti því öflugan ráðherra – allar hræringarnar með ráðuneytið kalla á sterka forystu,“ segir hann.

Mjög óvenjulegt ástand

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir þessar tíðu hræringar með ráðuneytið vera „mjög óvenjulegar“.

„Venjulega hefur dómsmálaráðuneytið verið mjög óumdeilt ráðuneyti en þannig hefur það nú aldeilis ekki verið síðastliðin tíu ár,“ segir hann og bætir við að þessar miklu breytingar séu vart til þess fallnar að auka þar stöðugleika.

Ólafur segir alltaf betra fyrir nýjan ráðherra að hafa reynslu af málaflokknum eða ráðherrastörfum.

„Ef þeir eru á annað borð hæfileikaríkir þá eru þeir oft tiltölulega fljótir að setja sig inn í mál, en þeir verða auðvitað að stóla á embættismennina til að byrja með.“

Ljóst er að nokkrir kostir eru í stöðunni fyrir formann Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að vali á nýjum dómsmálaráðherra. Flestir munu þeir þó kalla á misjöfn viðbrögð, ýmist ánægju eða óánægju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert