Smári nýr formaður Pírata

Smári McCarthy.
Smári McCarthy. mbl.is/Eggert

Smári McCarthy hefur verið kjörinn nýr formaður Pírata, auk þess sem Halldóra Mogensen er nýr þingflokksformaður flokksins í stað Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur.

Þetta tilkynnti forseti Alþingis rétt í þessu.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur jafnframt sagt af sér sem fimmti varaforseti Alþingis. Nýr varaforseti verður kosinn í hans stað á morgun. 

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig kom fram að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, geti ekki sinnt þingstörfum á næstunni. Í stað hans tekur sæti hans Ingibjörg Þórðardóttir, fyrsti varamaður á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.  

Framhald síðari umræðu um þriðja orkupakkann fer nú fram á Alþingi.

Uppfært klukkan 11.40:

Í tilkynningu frá stjórn þingflokks Pírata kemur fram að Halldóra Mogensen hafi verið kjörin formaður þingflokks Pírata á þingflokksfundi 25. ágúst. Á sama fundi var Þórhildur Sunna kjörin varaformaður og Helgi Hrafn Gunnarsson ritari.

Fram kemur að Smári hafi áður verið valinn formaður samkvæmt hlutkesti, eins og venjan er samkvæmt lögum Pírata.

Flokkurinn velji árlega formann samkvæmt hlutkesti til að tryggja aðgang að sömu aðstoð og aðrir þingflokkar hafa. Formannsembættinu fylgi engar formlegar skyldur eða valdheimildir. Eins og áður hafni þingmenn Pírata formannsálagi á þingfararkaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert