Loka hluta Reynisfjöru varanlega

Skriðan sem féll var býsna stór og hættuleg fólki.
Skriðan sem féll var býsna stór og hættuleg fólki. mbl.is/Hallur Már

Unnið er að varanlegri lokun á austurhluta Reynisfjöru, að sögn Þorbjargar Gísladóttur, sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Í síðustu viku féll stór skriða í Reynisfjalli sem er fyrir ofan fjöruna en þá höfuðkúpubrotnaði ferðamaður.

Þorbjörg segir ljóst að skriðuföll í fjallinu muni halda fram. „Ég held að menn sjái alveg fyrir sér að þarna eigi meira eftir að fara niður og mun að ég held gera það um ókomna tíð.“

Almannavarnir loka svæðinu í samráði við landeigendur. „Niðurstaða fundar sem við vorum á með landeigendum og fulltrúa almannavarna í síðustu viku var sú að bora ætti niður og setja keðju fyrir austasta hluta fjörunnar, þar sem hellirinn endar, svo það ætti ekki að fara fram hjá neinum að þetta svæði sé lokað. Austasti hluti fjörunnar verði lokaður en mest spennadi staðurinn er í raun áfram opinn, undir stuðlaberginu og þar í kring,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur ekki áhyggjur af neikvæðum áhrifum

Spurð hvort lokunin muni hafa neikvæð áhrif á Mýrdalshrepp segir Þorbjörg: „Alls ekki. Þetta er innsti hlutinn í fjörunni sem er vissulega fallegur en ferðamenn hafa ekkert endilega verið að sækja í að fara þangað nema einn og einn. Upplifunin sjálf er að fara þarna í vesturhlutann þar sem stuðlabergið og hellirinn er. Landeigendur leggja áherslu á það að svæðið sé opið og allir velkomnir áfram.“

Austasti hluti fjörunnar hefur verið lokaður síðan 20. ágúst en ferðamenn hafa samt sem áður streymt þangað þar sem sjórinn hrifsar burt borða lögreglu daglega. 

mbl.is