Umræðum um þriðja orkupakkann lokið

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins hefur tjáð sig ítrekað um orkupakkann …
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins hefur tjáð sig ítrekað um orkupakkann á þingi. mb.is/Kristinn Magnússon

Þingfundi dagsins, sem staðið hafði yfir síðan klukkan hálf ellefu í morgun, lauk á níunda tímanum í kvöld. Hann var hluti af svokölluðum þingstubbi sem hófst í gær og var einkum ætlaður til að afgreiða þingsályktunartillögur og lagafrumvörp er tengjast innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Fundinum lauk þó með ræðu Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um lagafrumvarp um skattlagningu tekna af höfundaréttindum. Sú ræða tók einungis nokkrar mínútur og að henni lokinni var þingfundi slitið.

Heldur rólegri fundur en í gær

Alþingi kemur aftur saman á mánudag og stendur þá til að greiða atkvæði um þau mál sem snúa að innleiðingu þriðja orkupakkans. 

Þingstubburinn hófst á Alþingi í gær og þá var hart tekist á. Sérstaklega á milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.

Fundurinn í dag var heldur rólegri þó að þingmenn úr andstæðum fylkingum væru alveg jafn langt frá því að vera sammála um málið og áður.

Líklega mikill meirihluti þingmanna með innleiðingu orkupakkans

Ljóst er að þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins eru alfarið á móti innleiðingu þriðja orkupakkans. Þá hefur Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagt að hann muni ekki samþykkja málið. Þá er óvíst hver afstaða þeirra Ásmunds Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Björn Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, er til málsins.

Allir aðrir þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, eru taldir líklegir til að greiða atkvæði með málinu og ætti því að vera mikill meirihluti fyrir innleiðingu orkupakkans. Það ætti þó að vera fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni á mánudag og hlusta á þingmenn gera grein fyrir atkvæðum sínum þar sem að málið er mikið hitamál.

Þá verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins ef og eftir að það verður samþykkt því skorað hefur verið á forseta Íslands að staðfesta ekki innleiðingu þriðja orkupakkans. Einnig hefur verið skorað á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að „styrkja lýðræðið“ með því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert