Vopnuð árás á 17 ára pilt

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um líkamsárás í Breiðholti (hverfi 111) upp úr klukkan 21 í gærkvöldi en þar höfðu fjórir til fimm menn ráðist á 17 ára pilt og barið hann með kylfu og belti. Pilturinn var fluttur á sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans og móðir hans upplýst um málið af hálfu lögreglu.

Lögreglan handtók mann við Ægisgarð á sjöunda tímanum í gær en hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis við stjórn á skipi. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan handtók ölvaðan mann í verslun í austurborginni (hverfi 105) klukkan 21 í gærkvöldi en hann var gripinn við þjófnað og hafði síðan ráðist á starfsmenn verslunarinnar.  Maðurinn var færður á lögreglustöð en látinn laus eftir viðtal.

Tilkynnt var um innbrot í bifreiðar í miðborginni um fjögurleytið í nótt. Búið var að brjótast inn í fjölda bifreiða, skemma og stela ýmsum munum. Lögreglan handtók mann á sjötta tímanum í morgun sem er grunaður um innbrotin og er búið að endurheimta mikið af þýfinu. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Ofurölvi maður var handtekinn í austurborginni (hverfi 108) í nótt þar sem hann var að reyna að komast inn í bifreiðar. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Kópavogi klukkan 19 í gær en ökumaðurinn, ung kona, er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda. Hún hefur ítrekað verið stöðvuð við akstur bifreiðar án þess að hafa öðlast ökuréttindi, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um klukkan 18:30 í gær var ekið á unga konu á reiðhjóli á bifreiðastæði í Árbænum. Hún féll í jörðina og kenndi eymsla í læri og mjöðm. Hún var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert