„Gjörsamlega óframkvæmanlegt“

Sveinn Runólfsson, til vinstri, tekur við íturvaxinni ávísun úr hendi ...
Sveinn Runólfsson, til vinstri, tekur við íturvaxinni ávísun úr hendi Óla Kr., forstjóra Olís, við kynningu á átakinu Græðum landið með Olís árið 1992.

Rúm 27 ár eru nú liðin frá því landgræðsluátaki Olís og Landgræðslu ríkisins, Græðum landið með Olís, var hrint af stað. Var það kynnt fjölmiðlum í Gunnarsholti hinn 26. maí 1992. Í átakinu fólst að 20 aurar af hverjum seldum bensínlítra rynnu til Landgræðslunnar og var Sveini Runólfssyni, þáverandi landgræðslustjóra, afhent fyrsta framlagið, þrjár milljónir króna, þennan dag í Gunnarsholti. Alls afhenti Olís Landgræðslunni 20 milljónir á árunum 1992 og 1993 og 80 milljónir á næstu 10 árum.

Kveikjan að átakinu var samtal Ómars Ragnarssonar, sem þá var fréttamaður hjá Stöð 2, og Óla Kr. Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Olís. Ómar hafði fengið þá hugmynd að stofna sérstaka græna flugsveit vina sinna í flugbransanum sem myndi fara um landið og dreifa áburði og fræjum úr flugvélum þar sem þess þyrfti.

„Ég vissi að Óli í Olís væri framkvæmdasamur maður. Ég spurði hann því hvað honum fyndist um þetta og hvort Olís vildi styðja það. Hann benti mér strax á að þetta væri gjörsamlega óframkvæmanlegt, sem var alveg hárrétt hjá honum,“ segir Ómar en dreifing sem þessi hefði orðið háð veðri og öðrum þáttum og því of mikil fyrirhöfn í kringum hana.

„Blessaður, vertu ekki að þessu“

„Við heyrðumst svo einum eða tveimur dögum síðar og þá sagði hann: „Blessaður, vertu ekki að þessu, við gerum þetta bara hjá Olís.“ Það var byrjunin. Þetta var því algjörlega hans heiður og hann framkvæmdi þetta í samstarfi við Svein,“ segir Ómar og kveðst lítið hafa þurft að velta átakinu meira fyrir sér. Hann hafi haldið sínu striki í að fjalla um landgræðslu og tengd málefni í fjölmiðlum.

Spurður segir Ómar að verkefnið hafi skilað sínu því þarna var komið stórt fyrirtæki sem setti nafn sitt við umhverfismálin. „Þetta var frábært verkefni sem þeir unnu að, þeir Óli og Sveinn,“ segir Ómar og bætir við: „Þetta var pottþétt og einföld fjáröflunaraðferð. Græna flugsveitin hefði hins vegar falið í sér mikla vinnu, fyrirhöfn, fjárútlát og áhættu varðandi árangur.“

Ítarlega umfjöllun um samstarf Olís og Landgræðslu ríkisins í fortíð og nútíð má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »