Hefur ekkert á móti Mike Pence

Katrín segir lítið gert úr þingi norrænna verkalýðsfélaga sem sumir …
Katrín segir lítið gert úr þingi norrænna verkalýðsfélaga sem sumir virðist telja jafnast á við landsþing frímerkjasafnara. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef aldrei nálgast alþjóðleg samskipti þannig að maður ætti bara að tala við þá sem eru manni sammála enda myndi ég líklega ekki tala við marga þá,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í sjónvarpsþættinum Silfrinu í dag. 

Þar spurði Egill Helgason þáttarstjórnandi Katrínu út í heimsókn Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Pence er á leiðinni til Íslands og mun hann funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni í Höfða í næstu viku.

Katrín verður ekki á landinu á sama tíma og Pence. „Það er náttúrlega búið að vera mikið uppnám út af þessu máli í fjölmiðlum sem kannski er ekki ástæða til. Hann boðaði komu sína í sumar og færði síðan þá dagsetningu þannig að ég verð ekki á landinu þann dag sem hann mætir,“ sagði Katrín.

Katrín kemur þó til landsins daginn sem Pence kemur til landsins. „Það sem hefur verið í skoðun er hvort við getum mæst þar á miðri leið, þegar hann er að fara og ég að koma. Það sem stóð til er að hann kemur í raun og veru bara hingað í stutt stopp. Þá átti að bjóða mér og fleirum í hádegismat á Bessastöðum og af því mun ég missa en þar verður minn staðgengill og fulltrúi míns þingflokks,“ sagði Katrín.

Utanferðin talin jafnast á við landsþing frímerkjasafnara

Hún sagðist ekkert hafa á móti Mike Pence þótt hún væri vissulega ekki sammála hans stjórnmálaskoðunum. Egill spurði hana svo hvort hún væri hrædd eða feimin við að hitta Pence. „Guð, ég feimin? Það held ég nú ekki,“ svaraði Katrín og skellti upp úr.

Katrín segir viðbrögðin við því að hún verði ekki á landinu furðuleg. „Það sem ég er að fara að gera erlendis er að tala á þingi norrænu verkalýðsfélaganna. Ísland fer þar með formennsku á þessu ári og það er ástæðan fyrir því að mér er boðið að koma og halda þar hálftíma erindi um framtíð vinnumarkaðarins, Evrópusamstarf og fleiri þætti sem skipta vinnandi fólk í þessum löndum máli. Það að hlusta á það hvernig um þetta er talað finnst mér alveg stórmerkilegt. Fólk á öllu litrófi stjórnmálanna telur þetta jafnast á við að heimsækja landsþing frímerkjasafnara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert