Hreinsa svæðið á kostnað eigenda

Svæðið við Elliðavatn hefur verið þyrnir í augum Kópavogsbúa og ...
Svæðið við Elliðavatn hefur verið þyrnir í augum Kópavogsbúa og annarra sem nýta sér svæðið til útivistar. Nú horfir til betri vegar. mbl.is/​Hari

„Ég er búinn að vera í sambandi við þjónustusvið Kópavogsbæjar og við erum að skipuleggja þessa hreinsun. Við hefjum störf á næstu dögum,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

mbl.is/​Hari

Útlit er fyrir að brátt verði hafist handa við að hreinsa umtalað svæði við Elliðavatn sem verið hefur þyrnir í augum Kópavogsbúa og annarra síðustu misseri. Um er að ræða niðurnídd sumarhús sem standa skammt frá Vatnsendahverfi. Svæðið er í eigu dánarbús athafnamannsins Þorsteins Hjaltested, landeiganda á Vatnsenda, sem lést í desember á síðasta ári. Þetta svæði hefur verið vinsælt til útivistar. Í umræddum sumarhúsum eru brotnar rúður og þar í kring eru brunninn bíll og ónýt húsgögn svo eitthvað sé nefnt. Þetta ástand hefur varað lengi en þrátt fyrir athugasemdir íbúa og heilbrigðiseftirlits hefur ekkert verið aðhafst.

mbl.is/​Hari

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur nú loksins ákveðið að höggva á hnútinn. Heilbrigðiseftirlitið sendi Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu ítrekun í byrjun þessa mánaðar þar sem gerð var krafa um að þegar í stað færi fram hreinsun á umræddum lóðum. „Aðstæður á svæðinu eru með öllu óásættanlegar og er umtalsverð slysahætta á svæðinu,“ segir í umfjöllun heilbrigðisnefndar svæðisins. Ekkert svar barst við umræddri ítrekun og því var Herði framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir á grundvelli reglugerðar um þvingunarúrræði.

mbl.is/​Hari

„Við erum ítrekað búin að gera kröfu um að þarna sé hreinsað en það hefur dregist úr hömlu. Samkvæmt lögum og reglugerðum um hollustuhætti höfum við heimild til að hefja hreinsunarstarf á kostnað eigenda því það verður ekki lengur við þetta búið. Vonandi kemst þetta í viðunandi horf, öllum til hagsbóta. Við munum senda búinu reikning fyrir kostnaðinum,“ segir Hörður.

Þær upplýsingar fengust hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í gær að ekkert hefði breyst í málinu, ekki hefði enn verið skipaður bústjóri yfir dánarbúinu og því væru hendur sýslumanns bundnar.

mbl.is/​Hari
mbl.is/​Hari
mbl.is/​Hari

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »