Syngur svo lengi sem röddin heldur

Eilífðarsjarmör þjóðarinnar, Raggi Bjarna, í Hörpu fyrr í dag.
Eilífðarsjarmör þjóðarinnar, Raggi Bjarna, í Hörpu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann var í góðum gír, stórsöngvarinn og eilífðarsjarmörinn sem tók á móti blaðamanni og ljósmyndara mbl.is í Hörpu fyrr í dag. Sá var mættur til að kveðja stóra sviðið með stórtónleikum í Eldborgarsalnum í kvöld. Stór tímamót í lífi manns sem hefur heillað þjóð sína með látúnsbarkanum síðustu sjötíu ár. Vitaskuld er skemmtikrafturinn farinn að finna fyrir aldrinum, verður 85 ára síðar í mánuðinum, en röddin virðist eldast eins og gott rauðvín og þakkar hann því velgengnina.

„Bara alinn upp við músík“

„Það veit ég ekki!“ svarar Raggi Bjarna hress, spurður númer hvað tónleikarnir í kvöld eru á ferlinum, enda má telja víst að giggin séu orðin óteljandi. „Ég byrjaði átta-níu ára í stofunni heima að þykjast vera „singer“. Byrjaði að spila á trommur snemma. Og svo byrjaði ég að syngja.“ Segir hann aðspurður að hann hafi engar sérstakar fyrirmyndir haft sem söngvari. Nefnir hann þó sáluga söngvarann Hauk Morthens. „Ég þekkti hann því hann söng með pabba, Bjarna Bö. En ég hafði enga sérstaka fyrirmynd. Ég stældi aldrei neinn en var bara hrifinn af söngvurum eins og Sinatra, Dean Martin, Hauki Morthens og líka Alfreð Clausen. Það var svona Bing Crosby-stæll á honum.“

Raggi kom við sögu í stórsýningunni Ellý, sem var sýnd ...
Raggi kom við sögu í stórsýningunni Ellý, sem var sýnd á stóra sviði Borgarleikhússins. Hér er hann ásamt Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, sem fór með hlutverk Ellýjar, en hún er ein þeirra sem syngur með Ragga í kvöld.

Það voru því ekki draumar um að verða eins og stjörnurnar sem ýttu Ragga út í tónlistina. „Ég var bara alinn upp við músík,“ segir hann og heldur áfram: „Mamma söng í Dómkirkjunni í þrjátíu-fjörutíu ár. Pabbi spilaði mikið og strax og ég var orðinn fimmtán ára var ég farinn að spila á trommur með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.“

Hvenær fyrstu tónleikar Ragga Bjarna voru haldnir hefur hann ekki á hreinu. „Ég var ekki einn,“ segir hann spurður um fyrstu skrefin á ferlinum. „Ég fór fljótlega yfir í KK sextettinn. Svo var ég hjá Svavari Gests lengi.“ Og svo hafi honum verið boðið að „taka við Sögu“. „Svo ég réð nýja menn og var þar í nítján vetur,“ segir Raggi, og á þar vitaskuld við tímann sem hann sá um skemmtanahald á Hótel Sögu, sem landsmenn muna margir eftir. Spurður hvort þar sé um að ræða skemmtilegasta tímann á ferlinum svarar Raggi að það sé alltaf skemmtilegur tími á ferlinum en á þessum tíma hafi allavega verið mest að gera. 

Raggi hefur komið víða við. Hér á kosningavöku með Guðna ...
Raggi hefur komið víða við. Hér á kosningavöku með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta lýðveldisins, fyrir þremur árum. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

„Þakka guði fyrir að halda röddinni“

Hver kynslóðin á fætur annarri hefur tekið ástfóstri við tónlist Ragga. Spurður hver sé galdurinn á bak við velgengnina, sjötíu ár af söng og stuði, segir Raggi: „Ég bara þakka Guði fyrir að halda röddinni. Maður finnur fyrir þessu og hinu hvað skrokkinn varðar, en röddin heldur. Svo lengi sem hún gerir það syng ég.“

Þar sem röddin hefur haldið hefur það ekki vafist fyrir Ragga að halda tónleika þó að hann eigi það til að gleyma textunum. „Ég spyr fólkið í salnum hvort það kunni þetta ekki og fæ það til að syngja með.“ Spurður hvort hann muni nokkuð muna alla textana í kvöld, enda stórskemmtilegt þegar áheyrendur fá að spreyta sig á lögunum, segir Raggi glettinn: „Ég fæ textablöðin hjá umboðsmanninum fyrir tónleika. Svo sjáum við hvað gerist.“

Raggi í flennifjöri á áttatíu ára afmælistónleikum fyrir fimm árum.
Raggi í flennifjöri á áttatíu ára afmælistónleikum fyrir fimm árum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is