„Alltaf erfitt að vera ekki í takt“

Ásmundur var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og eini þingmaður meirihlutans, sem …
Ásmundur var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og eini þingmaður meirihlutans, sem greiddi atkvæði gegn málinu. mbl.is/​Hari

„Ég greiddi samkvæmt sannfæringu minni. Þannig hef ég alltaf gert það á þinginu og mín sannfæring í þessu máli hefur verið ljós frá upphafi,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem greiddi atkvæði gegn þriðja orkupakka Evrópusambandsins á Alþingi nú fyrir hádegi.

Ásmundur var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og eini þingmaður meirihlutans, sem greiddi atkvæði gegn málinu.

„Það er auðvitað alltaf erfitt að vera ekki í takt við samflokksmenn sína, en ég er góður liðsmaður og þótt ég hafi ekki verið sammála í þessu máli þá hef ég nú verið sammála í flestu, þó ekki öllu auðvitað.“

Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir miklum stuðning við ákvörðun sína í baklandi Sjálfstæðisflokksins segist Ásmundur finna fyrir miklum stuðningi almennt. „Ég hef ekki verið að greina hvort það sé úr baklandi flokksins eða annars staðar að, en ég finn það líka reyndar.

Þegar ég er að vinna fyrir fólki í kjördæmi mínu spyr ég aldrei í hvaða flokki það er. Ég er auðvitað þingmaður allra og bregst við hverri bón, hvaðan sem hún kemur,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segir ekkert ósætti af hans hálfu innan þingflokksins. „Það liggur fyrir meirihluti í málinu og fyrir mér er það að baki.“

mbl.is